Viðskipti innlent

Fundinum mikil­væga frestað

Árni Sæberg skrifar
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru í Brussel í Belgíu. Aldo Pavan/Getty

Fundi þar sem greiða átti atkvæði um tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um verndarráðstafanir vegna kísilmálms hefur verið frestað fram á mánudag. Samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar verða íslenskir og norskir framleiðendur kísilmálms ekki undanþegnir verndarráðstöfununum.

Þetta staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við Vísi. Fyrst var greint frá málinu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Ægir Þór kveðst ekki búa yfir frekari upplýsingum um frestunina eða ástæður hennar. Ríkisútvarpið hefur eftir heimildamönnum sínum í Brussel að ástæðan sé hugsanlega sú að ekki hafi tekist að tryggja næg atkvæði til samþykktar ráðstöfununum.

Ísland á mikið undir á þessum fundi en Noregur enn meira. Fréttastofa ræddi við forstjóra Elkem á Íslandi sem rekur kísilmálmverksmiðju á Grundartanga. Hún lýsti óvissu og vonbrigðum en taldi ólíklegt að tilverugrundvelli fyrirtækisins yrði ógnað ef allt færi á versta veg.

Í greinargerð um tillögu framkvæmdastjórnarinnar kemur fram að innflutningur á kísilmálmi frá EES-samningsþjóðunum (Liechtenstein framleiðir ekki kísilmálm) nemi 47,4 prósent af öllum innflutningi kísilmálms til tollabandalagsins. Aukinheldur hafi framleiðslan verið flutt inn á ESB svæðið á verði sem sé sambærilegt og innan ESB.


Tengdar fréttir

Skýrt að verndarráðstafanir þurfi að ná yfir alla utan tollabandalags

Of snemmt er að segja til um hversu þungt höggið verður fyrir verksmiðju Elkem á Grundartanga samþykki ríki ESB tillögu framkvæmdastjórnarinnar um verndarráðstafanir. Sérfræðingur í Evrópurétti segir skýrt í regluverki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að ef tollabandalög grípa til verndarráðstafana þá gildi þær um alla sem standa utan bandalagsins, ekki bara suma.

Búi sig undir að berja í borðið

Grafalvarleg staða er uppi eftir að framkvæmdastjórn ESB gaf til kynna að hún ætli ekki að veita Íslandi undanþágu frá verndartollum á kísilmálm, að sögn sviðsstjóra hjá Samtökum iðnaðarins. Niðurstaðan sé mikil vonbrigði en baráttunni hvergi nærri lokið.

Ísland ekki undanþegið verndartollum ESB á kísilmálm

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa gert íslenskum og norskum stjórnvöldum ljóst að þau verði ekki undanþegin verndartollum sambandsins á kísilmálm. Utanríkisráðuneytið segir ákvörðunina ekki endanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×