Erlent

Her­menn reyna að ræna völdum í Benín

Agnar Már Másson skrifar
Hermenn birtust á skjám landsmanna í Benín og sögðust hafa rænt völdum.
Hermenn birtust á skjám landsmanna í Benín og sögðust hafa rænt völdum. Skjáskot

Hópur hermanna reyndi að taka völd í eigin hendur í Benín í morgun en ríkisstjórnarliðar segjast hafa stöðvað valdaránstilraunina. 

Hópur hermanna birtist í ríkissjónvarpi Benín um kl. 8.40 að íslenskum tíma og tilkynnti að búið væri að leysa upp ríkisstjórnina. Er þetta enn önnur valdaránstilraunin í Vestur-Afríku.

Hermennirnir sögðust hafa steypt af stóli Patrice Talon forseta, sem hefur verið þjóðarhöfðingi Benín síðan 2016. Hópurinn kallar sig einhvers konar hernaðarnefnd um endurstofnun (fr. le Comité militaire pour la refondation).

France24 kveðst hafa heimildir fyrir því að valdaránstilraunin hafi hafist með árás á heimili forsetans í höfuðborginni Porto-Novo. Benín á landamæri að Tógó í vestri, Nígeríu í austri auk Búrkína Fasó og Níger í norðri. 

Skrifstofa forsetans segir nú að hermönnum sem væru hliðhollir forsetanum hafi tekist að stöðva valdaránstilraunina og að forsetinn væri heill á húfi, samkvæmt France24.

Talon forseti má ekki sækjast eftir endurkjöri í komandi forsetakosningum í apríl 2026 en samflokksmaður Talons, Romuald Wadagni fyrrverandi fjármálaráðherra, þykir langlíklegastur til þess að vinna kosningarnar að sögn France24. Kjörnefnd hafði vísað frá framboði stjórnarandstæðingsins Renaud Agbodjo þar á þeim grundvelli að hann hefði ekki nægilega mörg meðmæli. Í nóvember ákvað löggjafinn í Benín að lengja kjörtímabil forseta úr fimm árum í sjö.

Undanfarin ár hafa fjölmörg valdarán verið framin í Vestur-Afríku og á Sahel-svæðinu svokallaða. Meðal annars í Búrkína Fasó, Malí, Tjad, Níger, Gíneu og Gabon.  Valdarán var framið á vesturströnd Afríku í nóvember þegar Umaro Sissoco Embaló, forseti Gíneu-Bissaú, sagðist hafa verið handtekinn af her ríkisins í forsetahöll sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×