Erlent

Blaða­manna­fundi af­lýst og ó­víst hvort Nóbels­verð­launa­hafinn mæti

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Maria Corina Machado leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela hlaut friðarverðlaun Nóbels.
Maria Corina Machado leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela hlaut friðarverðlaun Nóbels. Vísir/EPA

Nóbelsstofnunin þurfti að aflýsa blaðamannafundi með skömmum fyrirvara þar sem verðlaunahafi friðarverðlauna Nóbelsverðlauna er í felum. Ekki liggur fyrir hvort hún mæti á verðlaunaafhendinguna sjálfa á morgun.

María Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar frá Venesúela, hlaut friðarverðlaun Nóbels. Hún á að fá verðlaunin afhent á morgun og til stóð að halda blaðamannafund að henni viðstaddri en honum var aflýst þar sem hún er ekki komin til landsins.

Machado hefur ekki sést opinberlega síðan í janúar. Umdeildar forsetakosningar fóru fram í Venesúela í fyrra og var henni meinað að bjóða sig fram. Stjórnarandstaðan taldi sig hafa sigrað Nicolás Maduro forseta og lagði fram gögn máli sínu til stuðnings. Opinber kjörstjórn lýsti Maduro sigurvegara.

„Ég veit ekki hvar Machado er, en ég veit að hana langar til að koma og ég býst við því að hún sé á leiðinni,“ segir Kristian Berg Harpviken, forstöðumaður Nóbelstofnunarinnar, samkvæmt NRK.

„Ég tel það líklegt að hún verði í ráðhúsinu á morgun. En það er möguleiki að hún muni ekki komast og við erum með aðrar leiðir, til að mynda getur fjölskylda hennar tekið við verðlaununum.“

Machado er hvorki með vegabréf né hefur leyfi til að fljúga. Í lok nóvember sagði Tarik William Saab, ríkissaksóknari Venesúela, sem sakar hana um samsæri, hvatningu til haturs og hryðjuverk, að ef hún fari og taki við verðlaununum sé hún á flótta undan réttvísinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×