Erlent

Fyrr­verandi utanríkismálastjóri ESB hand­tekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Langir skuggar við Berlaymont-bygginguna sem hýsir meðal annars utanríkisþjónustu Evrópusambandsins í Brussel. Svo virðist sem að myrkaverk hafi verið framin þar í tengslum við útboð fyrir nokkrum árum.
Langir skuggar við Berlaymont-bygginguna sem hýsir meðal annars utanríkisþjónustu Evrópusambandsins í Brussel. Svo virðist sem að myrkaverk hafi verið framin þar í tengslum við útboð fyrir nokkrum árum. Vísir/EPA

Federica Mogherini, fyrrverandi utanríkismálstjóri Evrópusambandsins, er sögð ein þriggja einstaklinga sem voru handteknir í aðgerðum belgísku lögreglunnar í dag. Húsleit var einnig gerð hjá utanríkisþjónustu sambandsins en aðgerðirnar eru sagðar tengjast rannsókn á meintu misferli í útboði.

Húsleit var einnig gerð hjá Evrópuháskólanum í Brugge og á heimilum nokkurra einstaklinga, að sögn embættis saksóknara Evrópusambandsins. Embætti nafngreindi ekki þá handteknu en AFP-fréttaveitan hefur eftir heimildum sínum að Mogherini sé á meðal þeirra.

Aðgerðirnar tengjast rannsókn á svonefndum diplómataskóla Evrópusambandsins sem þjálfar unga erindreka og misferli með fjármuni sambandsins í tengslum við útboð.

Utanríkisþjónusta ESB bauð þjálfunarverkefnið út fyrir tímabili 2021 til 2022 og hlaut Evrópuháskólinn hnossið. Saksóknaraembættið segist hafa „sterkar grunsemdir“ um að útboðsferlið hafi ekki verið í samræmi við samkeppnislög.

Þannig sé rökstuddur grunur uppi um að fulltrúar Evrópuháskólans hafi fengið pata af kröfunum sem gerðar yrðu til verktaka áður en verkefnið var boðið út. Rannsóknin beinist einnig að því hvort að háskólinn hafi haft ástæðu til að ætla að hann fengi verkefnið, jafnvel áður en útboðið var auglýst.

Blaðið Politico hefur eftir háttsettum embættismanni hjá ESB að rannsókn á útboðinu hafi verið hafin áður en Kaja Kallas, núverandi utanríkismálastjóri sambandsins, tók við embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×