Fótbolti

Steinþóri skipt útaf til að hann kæmist sem fyrst heim til konunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinþór Freyr Þorsteinsson
Steinþór Freyr Þorsteinsson Mynd/Anton
Steinþór Freyr Þorsteinsson og félagar í Sandnes Ulf unnu frábæran 4-0 útisigur á Ullensaker/Kisa í gær í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta á næstu leiktíð. Steinþór var tekinn útaf á 82. mínútu en ástæðan var óvenjuleg.

Steinþór fór í leikinn þrátt fyrir að kona hans væri komin fram yfir tímann en hún á von á öðru barni þeirra. Íslenski miðjumaðurinn fékk algjöra sérmeðferð í leiknum því hann kom seinna á leikstað en félagar sínir í liðinu og fór einnig fyrr til baka.

„Það er frábært að hann gat verið með okkur í þessum leik. Hann kom með flugi klukkan fjögur og svo flaug hann til baka klukkan hálf tíu," sagði Asle Andersen, þjálfari Sandnes Ulf við VG.

„Ég varð að skipta honum útaf til þess að hann myndi ná fluginu heim. Ég var búinn að samþykkja það að taka hann útaf hvernig sem staðan var. Hann náði fluginu en Steinþór og konan hans höfðu komist að samkomulagi um að hafa þetta svona," sagði Andersen.

VG segir frá því að fæðingin hafi ekki verið farin af stað þegar Steinþór yfirgaf UKI Arena í gærkvöldi. Aksel Berget Skjølsvik, fyrirliði Sandnes Ulf, er meiddur og kom ekki með í leikinn. Hann var hinsvegar á vaktinni tilbúinn að láta Steinþór vita ef eitthvað væri að frétta af konunni.

Andersen sagði að Steinþór hafi fengið leyfi að hringja í hálfleik til að fá nýjustu fréttirnar af konunni en það er ekki venjan að leikmenn eyði hálfleikjunum í símanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×