Golf

Birgir Leifur lék frábært golf á lokahringnum í Belgíu

Birgir Leifur lék lokahringinn á 6 höggum undir pari og var á 8 höggum undir pari samanlagt.
Birgir Leifur lék lokahringinn á 6 höggum undir pari og var á 8 höggum undir pari samanlagt. vísir/getty
Birgir Leifur Hafþórsson lék frábært golf á lokahringnum á KPMG Áskorendamótinu sem fram fór í Belgíu í dag. Íslandsmeistarinn lék á 66 höggum eða 6 höggum undir pari vallarins og hann endaði á 8 höggum undir pari samanlagt.

Birgir endaði í 8.-11. sæti og tryggði hann sér keppnisrétt á næsta móti á þessari mótaröð sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Birgir ætlaði sér að leika á Nordic League móti í Noregi í næstu viku en hann fær keppnisrétt á Najeti Open mótinu sem fram fer á Aa Saint-Omer vellinum í Lumbres í Frakklandi.

Þetta er annað mótið á þessu tímabili sem Birgir Leifur tekur þátt í á Áskorendamótaröðinni og mótið í Frakklandi verður það þriðja á þessu tímabili.

„Það var geggjað veður á lokahringnum og ég byrjaði vel, fann góðan takt í sveiflunni. Upphafshöggin voru góð og ég ákvað að taka áhættuna og spila grimmt. Það gekk upp og ég er mjög sáttur. Ég var ekki alveg nógu þolinmóður fyrstu tvo dagana og lét hlutina fara í skapið á mér. Um helgina vann ég í því og hugsaði aðeins um þá hluti sem ég gat stjórnað. Hlutirnir gengu því betur í kjölfarið,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson við golf.is í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×