Körfubolti

Mun sitja áfram með Njarðvíkingum

Óskar Örn, knattspyrnumaður úr KR, sést hér í grænröndótta bolnum í stúkunni á fimmtudag að klappa fyrir Njarðvíkingum.
Óskar Örn, knattspyrnumaður úr KR, sést hér í grænröndótta bolnum í stúkunni á fimmtudag að klappa fyrir Njarðvíkingum. MYND/anton

Óskar Örn Hauksson, knattspyrnumaður úr KR, fékk að heyra það frá stuðningsmönnum KR á leik liðsins gegn Njarðvík á fimmtudag. Ástæðan er sú að Óskar Örn styður Njarðvík í körfuboltanum og situr með stuðningsmönnum þeirra á leikjum og því fékk hann nokkra söngva frá stuðningsmönnum KR.

„Þetta voru engin leiðindi hjá þeim. Þetta var allt innan siðsamlegra marka og bara léttar „kyndingar“, bara gaman að því,“ sagði Óskar Örn léttur en hann mætti í grænröndóttum bol með hvítu og svörtu á völlinn. Fatavalið var meðvitað hjá knattspyrnumanninum í ljósi umræðunnar. „Ég var samt rólegri í stúkunni nú en oft áður á þessum leik.“

Óskar Örn lék lengi vel með Njarðvík í körfuboltanum og þótti mjög efnilegur á sínum tíma. Hann er nánast alinn upp í Ljónagryfjunni í Njarðvík enda hefur móðir hans unnið þar í átján ár.

„Ég er harður Njarðvíkingur í körfunni og það breytist ekkert. Ég sit KR-megin á öllum körfuboltaleikjum nema gegn Njarðvík,“ sagði Óskar Örn.

Félagar hans í fótboltaliðinu höfðu strítt honum fyrr um daginn með því að líma klósettpappír á skápinn hans sem á stóð „Svikari“. Allt í gamni gert og mikið hlegið þegar Óskar kom inn í búningsklefann og sá miðann. Hann er enn á skápnum.

„Ég mætti svo 40 mínútum fyrir leik og strákarnir í stúkunni byrjuðu fljótlega að syngja Óskar í Njarðvík og svona. Ég hafði bara gaman af þessu þar sem þetta var ekkert rætið,“ sagði Óskar, sem var aldrei í vafa um að mæta á völlinn.

„Ég hlakkaði bara til að mæta. Var ekkert stressaður. Ég vissi samt ekki alveg við hverju var að búast en átti svo sem von á einhverju. Vissi að búið var að ræða málið á netinu til að mynda. Ég mun mæta í næsta leik ef ég get mætt og sitja Njarðvíkurmegin. Þetta er bara gaman og verður það áfram,“ sagði Óskar Örn, sem hefur ekki spáð meir í fataval á næstu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×