Körfubolti

Ætla að ljúka keppni með stæl

Íslenska landsliðið í körfubolta leikur í kvöld síðasta leik sinn í b-deild Evrópukeppninnar þegar það tekur á móti Austurríkismönnum í Laugardalshöll. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og er liðið sem sigrar tryggir sér þriðja sætið í riðlinum. Friðrik Ingi Rúnarsson aðstoðarþjálfari segir frábæran anda í herbúðum íslenska liðsins eftir tvo sigra í röð.

"Það er mjög góð stemming í hópnum fyrir leikinn í kvöld og menn eru ákveðnir á því að enda þetta með stæl og vinna síðasta leikinn," sagði Friðrik Ingi. Austurríkismenn unnu fyrri leikinn nokkuð stórt ytra í fyrri umferðinni 85-64, en þar hrundi leikur íslenska liðsins í fjórða leikhluta eftir að það hafði verið með forystuna þegar skammt var eftir af þriðja leikhlutanum.

"Botninn féll úr leik okkar í fjórða leikhlutanum í fyrri leiknum og þá var andinn enda ekki eins góður eftir svekkjandi tap gegn Finnunum þar áður," sagði Friðrik Ingi í samtali við Vísi í morgun. Árangurinn hefur verið talsvert betri í síðustu tveimur leikjum þar sem m.a. vannst óvæntur sigur á Georgíu í dramatískum leik í Laugardalshöllinni í lok síðasta mánaðar.

Friðrik Ingi segir að á pappírunum sé lið Austurríkis líklega skirfað aðeins hærra en það íslenska, en að sínu mati sé íslenska liðið betra. "Austurríkismennirnir eru mjög sterkir líkamlega og hávaxnir, en ég vil meina að við séum með leiknari menn. Stemmingin á leiknum við Georgíu fyrir viku var frábær og við viljum endilega ná upp sömu stemmingu í kvöld - og helst fá fullt hús," sagði Friðrik Ingi.

Þess ber að geta að íslenska liðið er án nokkurra lykilmanna um þessar mundir og þar má nefna Jón Arnór Stefánsson, Hlyn Bæringsson og Hörð Axel Vilhjálmsson, en þeir fengu frí frá síðustu leikjum liðsins í riðlakeppninni af persónulegum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×