Körfubolti

Keflavík mætir Haukum í úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan leik fyrir Keflavík í kvöld.
Bryndís Guðmundsdóttir átti góðan leik fyrir Keflavík í kvöld. Mynd/Stefán

Keflavík vann í kvöld Grindavík í síðari undanúrslitaleik Powerade-bikarkeppninnar í körfubolta.

Keflavík vann öruggan sigur, 92-59. Staðan í hálfleik var 40-30.

Keflvíkingar voru með frumkvæðið allan leikinn en upphafið á síðari hálfleik gerði endanlega út um leikinn. Fyrstu sjö mínúturnar skoruðu Keflvíkingar átján stig gegn sex frá Grindavík.

Bryndís Guðmundsdóttir fór mikinn á þessum leikkafla og skoraði fjórtán af þessum átján stigum Keflavíkur. Hún skoraði alls 35 stig og tók átta fráköst.

TaKesha Watson skoraði 16 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hrönn Þorgrímsdóttir var með níu stig.

Margrét Kara Sturludóttir átti einnig góðan leik, hún skoraði sjö stig, tók sjö fráköst, gaf sjö stoðsendingar og varði fimm skot. 

Hjá Grindavík var Joanna Skiba stigahæst með 26 stig, Ólöf Helga Pálsdóttir var næst með 16 stig en hún tók níu fráköst þar að auki.

Í úrslitum mætast því Haukar og Keflavík sem mættust einnig í bikarúrslitum og lokaúrslitum Íslandsmótsins á síðasta tímabilinu. Leikurinn verður í Laugardalshöllinni og hefst klukkan 14.00 á sunnudaginn. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×