Körfubolti

Súrt tap í Austurríki

Jón Arnór Stefánsson skoraði 17 stig í Austurríki
Jón Arnór Stefánsson skoraði 17 stig í Austurríki

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði í kvöld fyrir Austurríki í leik liðanna í B-deild Evrópukeppninnar 81-74. Leikurinn var í járnum frá fyrstu mínútu en heimamenn voru sterkari í lokin.

Jafnt var á öllum tölum þar til í lokin, en auk þess að vera án þeirra Jakobs Sigurðarsonar og Fannars Ólafssonar í leiknum, lenti íslenska liðið í villuvandræðum í lokin sem hjálpuðu því lítið.

Liðin voru jöfn 14-14 eftir fyrsta leikhluta og 39-39 í hálfleik.

Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 18 stig, Jón Arnór Stefánsson skoraði 17 stig og Sigurður Þorvaldsson skoraði 6 af 11 stigum sínum í blálokin þegar íslenska liðið freistaði þess af jafna.

Jón Arnór, Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson fengu allir sína fimmtu villu á lokaandartökum leiksins.

Þetta var þriðja tap íslenska liðsins í riðlinum og því er útlitið orðið heldur svart hjá liðinu. Það vann Dani hér heima á dögunum, en hefur þess utan tapað fyrir Hollendingum ytra, Svartfellingum hér heima og nú Austurríkismönnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×