Körfubolti

Baráttan skilaði góðum sigri á Dönum

Logi Gunnarsson skoraði 12 stig, hirti 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar
Logi Gunnarsson skoraði 12 stig, hirti 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann í kvöld góðan 77-71 sigur á Dönum í fyrsta leik sínum í Evrópukeppni B-þjóða. Sigur íslenska liðsins var í raun aldrei í hættu, en góður varnarleikur og gríðarleg barátta skiluðu íslenska liðinu sigrinum.

Íslenska liðið byrjaði betur í leiknum og hafði yfir 25-19 eftir fyrsta leikhlutann þar sem Jón Arnór Stefánsson fór fyrir liðinu í sínum fyrsta heimaleik með landsliðinu í tvö ár.

Íslendingar höfðu yfir í hálfleik 40-37 eftir að hafa náð mest 10 stiga forystu, en danska liðið hafði þá aðeins í tvígang náð að hafa forystuna.

Íslenska liðið var vel stutt af fjölmörgum áhorfendum sem lögðu sér leið í Höllina í kvöld, en þeir hefðu vissulega mátt vera fleiri.

Í þriðja leikhlutanum dró nokkuð í sundur með liðunum og náði íslenska liðið að auka forskotið jafnt og þétt, en Danir minnkuðu muninn í 10 stig fyrir lok þriðja leikhluta 64-54. Helgi Magnússon átti frábæra innkomu í íslenska liðið í leikhlutanum og skoraði mikilvæga þrista.

Fjórði leikhlutinn einkenndist af gríðarlegri baráttu og var sóknarleikurinn ekki upp á marga fiska hjá liðunum á þeim kafla, enda var fast leikið. Íslenska liðið lét forskotið aldrei af hendi þó Dönum tækist að laga stöðuna nokkuð í lokin og íslenska liðið hafði að lokum sigur 77-71 eins og áður sagði.

Fín byrjun hjá íslenska liðinu sem mætir næst Hollendingum ytra á laugardaginn.

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 14 stig, Páll Axel Vilbergsson skoraði 12 stig (7 frák), Logi Gunnarsson 12 stig (6 frák, 6 stoð) og Jakob Sigurðarson skoraði 8 stig. Fannar Ólafsson skoraði 2 stig og hirti 10 fráköst, en barátta hans og hinna stóru strákanna í íslenska liðinu sló hávaxnari Danina alveg út af laginu.

Chanan Coleman skoraði 15 stig fyrir danska liðið og Peter Johansen 14.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×