Körfubolti

Hlynur: Fáum að sjá hvað við getum á þessu Norðurlandamóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson hefur tekið við fyrirliðabandinu í íslenska karlalandsliðinu í körfubolta og verður í aðalhlutverki með liðnu á komandi Norðurlandamóti í Sundsvall í Svíþjóð. Hlynur var í viðtali hjá Ásgeiri Erlendssyni íþróttafréttamanni á Stöð 2.

„Það væri frábært að ná öðru sætinu en þriðja sætið væri fínt líka," segir nýi landsliðsfyrirliðinn um möguleika íslenska liðsins á NM sem fer einmitt fram á heimavelli hans í Sundsvall. Hlynur varð sænskur meistari með Drekunum frá Sundsvall síðasta vetur.

„Við erum svolítið á núll punkti, erum að byrja aftur og ætlum að reyna að gera þetta vel. Við þurfum að byrja einhverstaðar. Við fáum að sjá hvað við getum á þessu Norðurlandamóti," segir Hlynur og hann er ánægður með leikmannahópinn.

„Við erum með svolítið að hæfileikaríkum mönnum en okkur vantar helst samæfingu. Þessi lið sem við erum að fara að spila á móti eru að halda áfram með sín prógrömm og erum búnir að vera að síðustu ár. Við erum hinsvegar að koma aftur inn í þetta og erum að reyna að byrja þetta upp á nýtt," segir Hlynur en íslenska landsliðið spilaði sinn síðasta leik í ágúst 2009.

„Það háir okkur sem og þá erum við að fara inn í alveg nýtt kerfi hjá nýjum þjálfara og ég hef helst áhyggjur af því að við höfum ekki nægan tíma til að læra allt sem hann vill að við gerum," segir Hlynur en hann hefur samt fulla trú á nýja leikkerfinu.

„Þetta leikkerfi gengur vel en það þarf samt meiri tíma. Við erum engir vitleysingar og getum alveg lært þetta á skömmum tíma. Það gæti samt þurft meiri tíma til að við verðum öryggir með okkur í þessu leikkerfi," sagði Hlynur en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×