Körfubolti

Þrír íslenskir krakkar komust í úrvalslið Norðurlandamótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir var bæði stigahæst og frákastahæst.
Sara Rún Hinriksdóttir var bæði stigahæst og frákastahæst. Mynd/Anton
Ísland átti þrjá leikmenn í úrvalsliðum á Norðurlandamóts unglinga í körfubolta í Svíþjóð en valið var tilkynnt nú rétt áðan. Martin Hermannsson og Valur Orri Valsson voru í úrvalsliði 18 ára stráka og Sara Rún Hinriksdóttir var valin í úrvalsliði 16 ára stelpna. Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

Martin Hermannsson og Valur Orri Valsson fóru mikinn með íslenska 18 ára liðinu sem endaði í 2. sæti á mótinu en liðið vann fyrstu fjóra leiki sína. Martin kemur úr KR og var með 16,6 stig og 4,2 fráköst að meðaltali í 5 leikjum íslenska liðsins. Valur Orri kemur úr Keflavík og var með 11,6 stig, 4,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Sara Rún Hinriksdóttir og félagar í 16 ára landsliðinu voru hársbreidd frá fjórða sætinu en hún var langstigahæsti leikmaðurinn hjá 16 ára liðunum með 20,8 stig að meðaltali í leik. Sara, sem kemur úr Keflavík, tók einnig flest frákast af öllum í mótinu eða 10,0 að meðaltali í leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×