Körfubolti

Strákarnir töpuðu illa í úrslitaleiknum - 16 ára stelpurnar í 4. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maciej Baginski.
Maciej Baginski. Mynd/Vilhelm
Íslenska 18 ára landsliðið í körfubolta varð að sætta sig við silfrið á Norðurlandamóti unglinga í Solna í Svíþjóð eftir 41 stigs stórtap á móti Finnum í leiknum um gullið. Þetta var fyrsta og eina tap íslenska liðsins á mótinu. Sextán ára stelpunum tókst á sama tíma ekki að ná í bronsið en þær töpuðu fyrir Dönum í leiknum um þriðja sætið.

Finnar unnu 41 stigs sigur, 105-64, á íslenska 18 ára landsliðinu í úrslitaleiknum. Finnar tóku völdin strax í fyrsta leikhluta sem þeir unnu 28-15 og voru síðan komnir 21 stigi yfir í hálfleik, 50-29. Vonir íslensku strákanna dóu þó endanlega í upphafi þriðja leikhluta en Finnar byrjuðu hann á 20-1 spretti og komust í framhaldinu í 72-30.

Maciej Baginski og Martin Hermannsson voru stigahæstir í íslenska liðinu með 16 stig hvor en Emil Karel Einarsson skoraði 13 stig. Íslenska liðið tapaði fráköstum 26-57 en Finnar tóku einmitt 26 sóknarfráköst.

Sextán ára stelpurnar töpuðu 56-62 á móti Dönum í leiknum um þriðja sætið en íslensku stelpurnar unnu leik liðanna í riðlakeppninni. Danir voru alltaf skrefinu á undan í þessum leik. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 24 stig og tók 8 fráköst og Guðlaug Júlíusdóttir var með 12 stig. Sandra Lind Þrastardóttir bætti síðan við 7 stigum og 8 fráköstum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×