Körfubolti

Þrír sigrar og eitt tap á eistneskum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Kar Jónsson var með 37 stig á móti Eistum.
Dagur Kar Jónsson var með 37 stig á móti Eistum. Mynd/Anton
Íslensku unglingalandsliðin í körfubolta unnu þrjá af fjórum leikjum sínum á fyrsta degi Opna Norðurlandamóti unglinga í körfubolta sem fer fram í Stokkhólmi eins og undanfarin ár. Ísland mætti Eistlandi í leikjum sínum í dag. Bæði 16 ára og 18 ára strákarnir unnu sína leiki sem og 16 ára stelpurnar en 18 ára stelpurnar urðu að sætta sig við tap.

Eftir að öll lið hafa leikið gegn hvort öðru verður farið í töfluna og það lið sem situr í efsta sæti verður krýnt Norðurlandameistari í sínum flokki. Undanfarin ár hefur verið leikið um 1. sætið og 3. sætið. Nú leika öll lið fimm leiki sem telja til sigurs.

Átján ára lið karla vann 103-102 spennusigur á Eistlandi eftir tvíframlengdan leik. Stjörnumaðurinn Dagur Kar Jónsson (sonur Jóns Kr. Gíslasonar) skoraði 37 stig, Njarðvíkingurinn Maciej Baginski var með 24 stig og Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson (sonur Guðmundar Bragasonar) skoraði 22 stig. Pétur Birgisson frá Tindastóli skoraði sigurkörfuna sex sekúndum fyrir leikslok.

Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson (sonur Páls Kristinssonar) skoraði 34 stig og Kári Jónsson (sonur Jóns Arnars Ingvarssonar) var með 19 stig þegar 16 ára lið Íslands vann öruggan 86-67 sigur á Eistlandi.

Ísfirðingurinn Eva Kristjánsdóttir skoraði 19 stig fyrir 16 ára lið kvenna sem vann 58-48 sigur á Eistlandi. Haukakonan Þóra Kristín Jónsdóttir var með 16 stig og Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði 13 stig.

Lovísa Björt Henningsdóttir úr Haukum skoraði 15 stig og tók 11 fráköst og Keflvíkingurinn Ingunn Embla Kristínardóttir var með 10 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar þegar 18 ára lið kvenna tapaði 53-68 fyrir Eistlandi.

Á morgun verður „norskur dagur“, öll fjögur liðin okkar leika gegn Noregi og þannig verður framhaldið, allir leika gegn Finnum á föstudag, Svíum á laugardag og Dönum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×