Handbolti

Þriggja marka sigur Ungverja | Ótrúlegur endasprettur Svartfellinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gergö Iváncsik skoraði þrjú mörk fyrir Ungverjaland í gær.
Gergö Iváncsik skoraði þrjú mörk fyrir Ungverjaland í gær. Vísir/AFP
Fyrri lotu umspilsins í Evrópu um sæti á HM 2015 í Katar lauk í gær með tveimur leikjum.

Ungverjar unnu þriggja marka sigur á Slóvenum á heimavelli. Lokatölur urðu 25-22, heimamönnum í vil.

Ungverjar voru með undirtökin lengst af. Þeir skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og voru með 2-3 marka forystu framan af fyrri hálfleik.

Slóvenum tókst að jafna leikinn þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og gestirnir komust svo í fyrsta sinn yfir þegar Luka Zvizej kom þeim í 12-13.

Ferenc Ilyés sá hins vegar til þess að heimamenn færu með eins marks forskot inn í leikhléið þegar hann skoraði lokamark fyrri hálfleiks. Staðan 16-15, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Ungverjar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu fljótlega því 2-3 forskoti sem þeir voru með lengst af fyrri hálfleiks.

Heimamenn komust mest fimm mörkum yfir, 24-19, og unnu leikinn að lokum með þremur mörkum, 25-22.

Gergely Harsanyi var markahæstur í liði Ungverja, en hann skoraði níu mörk úr níu skotum. Szabolcs Zubai, Ilyés og Gergö Iváncsik komu næstir með þrjú mörk hver.

Dragan Gajic skoraði mest í liði Slóvena, eða níu mörk. Jure Natek kom næstur með fjögur mörk.

Svartfjallaland lagði Hvíta-Rússland á heimavelli með einu marki, 28-27, eftir að gestirnir höfðu verið með fjögurra marka forystu í hálfleik.

Hvít-Rússar byrjuðu leikinn mun betur og um miðjan fyrri hálfleik var staðan 3-8, þeim í vil. Gestirnir voru jafnan með 4-5 marka forystu og þegar hálfleiksflautið gall var staðan 10-14.

Heimamenn unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og þeim tókst loks að jafna, í 19-19, um miðbik seinni hálfleiks.

Hvít-Rússar tóku þá aftur á sprett og skoruðu fjögur næstu mörk leiksins, en Svartfellingar tryggðu sér sigurinn með frábærum endaspretti.

Á síðustu tíu og hálfri mínútu leiksins breyttu heimamenn stöðunni úr 20-24 í 28-27, en þeir skoruðu tvö síðustu mörkin á síðustu tólf sekúndum leiksins. Lokatölur 28-27, Svartfjallalandi í vil.

Fahrudin Melic skoraði sex mörk fyrir Svartfellinga, þ.á.m. sigurmarkið, sekúndu fyrir leikslok. Vasko Sevaljevic kom næstur með fimm mörk.

Siarhei Rutenka var eins og svo oft áður markahæstur í liði Hvíta-Rússlands, en hann skoraði níu mörk. Barys Pukhouski kom næstur með fimm mörk.


Tengdar fréttir

Naumur sigur Svía

Fredrik Peterson reyndist hetja Svía þegar hann tryggði liðinu eins marks útisigur, 24-25, á Rúmeníu í fyrri leik liðanna um laust sæti á HM 2015 í Katar.

Austurríki hafði betur gegn Noregi | Stórsigur Serba

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu unnu tveggja marka heimasigur, 28-26, á Noregi í fyrri leik liðanna um sæti á HM í Katar á næsta ári. Norðmenn leiddu með einu marki í hálfleik, 15-16.

Jurkiewicz hetja Pólverja

Pólland vann eins marks sigur, 25-24, á Þýskalandi í fyrri leik liðanna um sæti á HM 2015 í Katar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×