Handbolti

Þjóðverjar fara ekki á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Biegler og lærisveinar hans slógu Þjóðverja út.
Michael Biegler og lærisveinar hans slógu Þjóðverja út. Vísir/AFP
Pólland vann Þýskaland 28-29 í seinni leik liðanna um sæti á HM 2015 í Magdeburg í dag. Pólverjar unnu fyrri leikinn í Gdansk, 25-24, og viðureignina samanlagt 54-52.

Þetta er í annað skiptið í röð Þjóðverjum mistekst að tryggja sér sæti á stórmóti, en þeir voru heldur ekki með á EM í Danmörku í vetur. Ljóst er að pressan á Martin Heuberger mun aukast við þessi úrslit, en hann hefur þjálfað þýska liðið frá árinu 2011.

Leikurinn var jafn framan af en um miðjan fyrri hálfleikinn tóku Þjóðverjar fram úr. Heimamenn breyttu stöðunni úr 6-6 í 10-6 og þeir leiddu 14-10 í hálfleik.

Pólverjar tóku við sér í seinni hálfleik og þegar 18 mínútur voru eftir jafnaði Michal Daszek leikinn í 18-18.

Jafnt var á flestum tölum það sem eftir lifði leiks, en þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir kom Steffen Fäth Þjóðverjum tveimur mörkum yfir, 27-25.

Pólverjar skoruðu næstu þrjú mörk og komust í 27-28. Patrick Groetzki jafnaði leikinn en Piotr Chrapkowski tryggði Pólverjum sigur og farseðilinn til Katar með marki fimm sekúndum fyrir leikslok. Lokatölur 28-29, Póllandi í vil.

Karol Bielecki skoraði sjö mörk fyrir Pólverja og Michal Jurecki fimm.

Holger Glandorf og Uwe Gensheimer voru markahæstir í liði Þjóðverja með sjö mörk hvor.

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæmdu leikinn í Magdeburg í dag.




Tengdar fréttir

Tékkar fara til Katar

Tékkneska landsliðið í handbolta tryggði sér sæti á HM 2015 í Katar með ótrúlegum tólf marka sigri á Serbíu í Brno í dag.

Patrekur og félagar tryggðu sér farseðilinn til Katar

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu í handbolta verða á meðal þátttökuþjóða á HM í Katar á næsta ári. Þetta varð ljóst eftir jafntefli Austurríkis og Noregs í seinni leik liðanna um sæti á HM í dag.

Jurkiewicz hetja Pólverja

Pólland vann eins marks sigur, 25-24, á Þýskalandi í fyrri leik liðanna um sæti á HM 2015 í Katar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×