Handbolti

Schwalb: Ég er klár í slaginn á ný

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schwalb gerði Hamburg að Evrópumeisturum 2013.
Schwalb gerði Hamburg að Evrópumeisturum 2013. Vísir/Getty
Martin Schwalb, fyrrverandi þjálfari Hamburg, segir að hann sé klár í slaginn á ný eftir hjartaáfallið sem hann fékk fyrir þremur mánuðum.

Í viðtali við þýska tímaritið Sport-Bild segir Schwalb að hann hefði haft mikinn áhuga á að taka við þýska landsliðinu í handbolta.

„Ég hefði verið meira en til í að taka við landsliðinu,“ sagði Schwalb og bætti við: „Ég er tilbúinn að snúa aftur í þjálfun að þessu tímabili loknu.“

Schwalb var sagt upp störfum hjá Hamburg 3. júlí síðastliðinn, sama dag og hann fékk hjartaáfallið. Hann gekkst undir þriggja tíma aðgerð og segist vera heppinn að vera á lífi. Schwalb segist vera við ágæta heilsu í dag, en hann hætti að reykja eftir hjartaáfallið.

Schwalb, sem starfar nú sem álitsgjafi í sjónvarpi, er hissa á að það hafi ekki verið haft samband við hann eftir að Martin Heuberger var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Þýskalands.

„Mér finnst það svolítið skrítið að það hafi ekki verið rætt við mig,“ sagði Schwalb, en sem kunnugt er var Dagur Sigurðsson ráðinn þjálfari þýska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×