Handbolti

Fimm íslensk mörk í sigri Löwen | Magdeburg tapaði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin varði 15 skot í marki Löwen í kvöld.
Niklas Landin varði 15 skot í marki Löwen í kvöld. Vísir/Getty
Tveir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk og Alexander Petersson eitt þegar Rhein-Neckar Löwen vann öruggan sigur á Hannover-Burgdorf á heimavelli.

Leikurinn var jafn framan af, en í stöðunni 6-6 tóku Ljónin völdin og skoruðu fimm mörk í röð. Staðan í leikhléi var 15-9.

Löwen kláraði svo leikinn með því að skora fimm fyrstu mörk seinni hálfleiks. Eftir það var aðeins spurning hversu stór sigurinn yrði. Svo fór að Ljónin unnu með tólf mörkum, 32-20.

Stefan Kneer var markahæstur í liði Löwen með sjö mörk, en Svíinn Kim Ekdahl du Rietz kom næstur með sex mörk. Torge Johannsen skoraði mest fyrir Hannover, eða fimm mörk. Ólafur Guðmundsson skoraði eitt mark.

Löwen er enn í toppsæti deildarinnar, nú með 16 stig, fjórum stigum á undan Þýskalandsmeisturum Kiel. Hannover er í 14. sæti.

Í hinum leik kvöldsins vann Hamburg eins marks sigur, 25-26 á lærisveinum Geirs Sveinssonar í Magdeburg. Staðan í hálfleik var jöfn, 12-12. Geir og félagar eru í 5. sæti með níu stig, en Hamburg í 9. sæti með átta stig.

Robert Weber fór á kostum í liði Magdeburg og skoraði 13 mörk, en Austurríkismaðurinn hefur byrjað tímabilið af miklum krafti.

Adrian Pfahl skoraði mest fyrir Hamburg, eða sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×