Handbolti

Ólíkt þeim störfum sem ég hef vanist

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tvö störf. Aron þjálfar Ísland og Kolding.
Tvö störf. Aron þjálfar Ísland og Kolding. Fréttablaðið/Vilhelm
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handbolta, var í gær ráðinn þjálfari danska meistaraliðsins KIF Kolding sem hann stýrði seinni hluta síðasta árs í fjarveru veiks þjálfara liðsins. Aron var kynntur með pompi og prakt á blaðamannafundi ásamt nýjum leikmönnum liðsins og styrktaraðilum þess.

Hann heldur áfram starfi sínu sem landsliðsþjálfari fram á næsta ár í það minnsta, en þá rennur núgildandi samningur hans út. Sjálfur sagðist hann í viðtali við Fréttablaðið vilja halda áfram starfi sínu sem landsliðsþjálfari. Það að þjálfa Kolding truflar landsliðsþjálfarastarfið ekki.

„Maður er á vissan hátt í betri æfingu og alltaf „ON“. Það er í lagi á meðan álagið verður ekki of mikið. Hér æfum við á tveimur stöðum og ég er með tvo aðstoðarmenn sem ég get nýtt. Þetta er ólíkt öllum þeim störfum sem ég hef vanist. Ég er búinn að prófa þetta og veit út í hvað ég er að fara. Ég hafnaði tilboðum frá öðrum liðum sem hefðu aldrei gengið upp með landsliðinu. Það hafði mikla þýðingu fyrir mig að þetta myndi passa með landsliðinu,“ sagði Aron við Fréttablaðið í gær rétt eftir að hann steig úr mynd á blaðamannafundinum.

Aron var ráðinn í fullt starf hjá HSÍ þegar hann hætti með Haukana og átti að koma að uppeldis-og fræðslumálum. Því starfi er í raun sjálfhætt þótt hann muni koma áfram að ýmsum verkefnum sem landsliðsþjálfari, að sögn Guðmundar Ólafssonar, formanns HSÍ.

Sambandið gaf það út þegar Guðmundur Guðmundsson tók við starfi Rhein-Neckar Löwen að það vildi ekki hafa þjálfara sem einnig stýrði félagsliði. Það þurfti nú að endurskoða stefnu sína í ljósi ákvörðunar Arons.

„Fyrsti kostur hjá okkur var að þjálfarinn væri heima,“ sagði Guðmundur við Fréttablaðið en aldrei kom til greina að leita til annars þjálfara. „Það var aldrei rætt. Við treystum Aroni fullkomlega til að koma okkur aftur í fremstu röð í handboltanum.“


Tengdar fréttir

Aron ráðinn þjálfari Kolding

Forráðamenn danska meistaraliðsins Kolding hafa boðað til blaðamannafundar í Kaupmannahöfn á morgun þar sem tilkynnt verður að Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari verði áfram í herbúðum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×