Enski boltinn

Annar stjóri rekinn úr ensku úr­vals­deildinni

Sindri Sverrisson skrifar
Steve Cooper huggar lærisvein sinn hjá Forest, Renan Lodi.
Steve Cooper huggar lærisvein sinn hjá Forest, Renan Lodi. EPA-EFE/VINCE MIGNOTT

Forráðamenn Nottingham Forest hafa ákveðið að reka knattspyrnustjórann Steve Cooper úr starfi og hafa þegar fundið arftaka hans, sem þekkir vel til í ensku úrvalsdeildinni.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að allar líkur séu á því að Nuno Espirito Santo, Portúgalinn sem áður stýrði Wolves og Tottenham, verði næsti stjóri Forest. Hann var rekinn úr starfi hjá Al-Ittihad í Sádi-Arabíu í síðasta mánuði. 

Nuno Espirito Santo þekkir það að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni.EPA-EFE/PETER POWELL

David Ornstein, blaðamaður hjá The Athletic, segir að búið sé að greina Cooper frá brottrekstrinum og að félagið sé samhliða því að losa sig við hóp starfsfólks, til að rýma fyrir nýjum stjóra og hans teymi.

Cooper, sem er 44 ára gamall, stýrði Swansea í tvö ár áðu ren hann tók við Forest í september 2021. Liðið var þá í neðsta sæti ensku B-deildarinnar en vann sig í lok leiktíðar upp í ensku úrvalsdeildinnar, eftir sigur í umspili. Forest lék því í efstu deild á síðustu leiktíð, í fyrsta sinn á þessari öld.

Forest er núna í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu 13 úrvalsdeildarleikjum og náð í átta stig í þeim leikjum. Alls er liðið með 14 stig eftir 17 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×