Handbolti

Naumt tap hjá Fyllingen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri Stefan í leik með Haukum.
Andri Stefan í leik með Haukum. Mynd/Ole Nielsen

Andri Stefan skroaði tvö mörk fyrir norsku meistarana í Fyllingen sem töpuðu í gær fyrir Drammen á heimavelli, 37-36. Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með sínum liðum í gær.

Fyllingen hefur ekki byrjað vel í deildinni og aðeins unnið einn af fyrstu þremur leikjum sínum. Drammen er hins vegar með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.

Elverum hefur einnig unnið alla þrjá leiki sína til þessa. Sigurður Ari Stefánsson skoraði tvö mörk fyrir liðið er það vann Sandefjord á heimavelli, 25-24.

Þá stóð Ólafur Haukur Gíslason í marki Haugaland sem tapaði fyrir Bækkelaget á útivelli, 29-24. Ólafur stóð sig vel en það dugði ekki til. Haugaland er í áttunda sæti deildarinnar með tvö stig, rétt eins og Fyllingen.

Þá var leikið í þýsku B-deildinni í gær. Einar Ingi Hrafnsson skoraði fjögur mörk fyrir Nordhorn sem tapaði fyrir Ahlener á heimavelli, 29-28. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði ekki fyrir Ahlener í leiknum.

Þá skoraði Agnar Jón Agnarsson tvö mörk fyrir Aue sem vann Korschenbroich, 30-27, á heimavelli.

Hreiðar Levý Guðmundsson var í sigurliði Emsdetten en liðið lagði Dessau-Rosslauer á heimavelli, 33-32.

Ahlener er í þriðja sæti norðurriðilsins í þýsku B-deildinni, Emsdetten í því fimmta og Nordhorn því sjötta. Aue er í sjötta sæti suðurriðilsins.

Að síðustu var Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Björn Ingi Friðþjófsson stóð í marki FHK Elite sem tapaði fyrir FC Kaupmannahöfn á heimavelli, 34-24. Arnór Atlason komst ekki á blað í liði FCK.

FCK er í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig en FHK Elite í því ellefta með aðeins tvö stig eftir sjö leiki.




Tengdar fréttir

Guðjón Valur með átta mörk

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði átta mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann góðan sigur á Hannover-Burgdorf á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld, 34-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×