Handbolti

Omeyer valinn besti markvörður allra tíma með miklum yfirburðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Omeyer.
Thierry Omeyer. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Thierry Omeyer, markvörður Kiel og franska landsliðsins, fékk yfirburðarkosningu á heimasíðu Alþjóða handboltasambandsins þegar lesendur síðunnar voru beðnir um að velja besta markvörð allra tíma.

Omeyer fékk 93 prósent af þeim 4000 atkvæðum sem bárust í könnuninni en í öðru sæti kom rússneski markvörðurinn Andrej Lavrov með 2.98 prósent atkvæða. Þjóðverjinn Andreas Thiel (1.74 %) og Svíinn Mats Olsson (1.74 %) komu síðan í næstu sætum.

Thierry Omeyer hefur unnið allt á sínum ferli og í dag er hann handhafi Heimsmeistara-, Evrópumeistara- og Ólympíumeistaratitils með franska landsliðinu auk þess að vinna Meistaradeildina og þýska meistaratitilinn með Kiel á síðasta tímabili.

Omeyer er 34 ára gamall og hóf ferillinn með Sélestat árið 1994. Hann lék með Montpellier frá 2000 til 2006 en hefur leikið með Kiel undanfarin fjögur ár. Hann hefur leikið 236 landsleiki fyrir Frakka frá því að hann lék sinn fyrsta landsleik í september 1999.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×