Handbolti

Snorri Steinn og Arnór í úrslitaleikinn eftir framlengdan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason er kominn í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð.
Arnór Atlason er kominn í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð. Mynd/Heimasíða AG
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason komust í kvöld í úrslitaleik danska bikarsins eftir 27-26 sigur lið þeirra AG frá Kaupmannahöfn á Skjern í framlengdum undanúrslitaleik í NRGi-höllinni í Árósum.

AG hafði aðeins tapað einu stigi á tímabilinu og það var einmitt á móti Skjern þegar liðin gerðu 26-26 jafntefli í þriðju umferð. Skjern er í 3. sæti dönsku deildarinnar átta stigum á eftir AG sem er enn taplaust.

Leikurinn var jafn og spennandi í upphafi en eftir að Skjern hafði frumvæðið í byrjun náði AG að komast tveimur mökum yfir. AG var síðan með frumkvæðið þar til að Skjern náði góðum endaspretti fyrir hálfleik.

Skjern vann lokamínútur fyrri hálfleiksins 5-1 og var 14-11 yfir í hálfeik. AG skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 14-13, og nú héldu flestir að þeir myndu taka frumkvæðið í leiknum.

Það fór þó ekki svo, Skjern svaraði með því að skora fjögur mörk í röð og komst fimm mörkum yfir, 18-13.

Skjern hélt síðan fjögurra marka forskoti þar til í lokin er AG tryggði sér framlengingu með því að skora fjögur síðustu mörk leiksins og breyta stöðunni úr 24-20 fyrir Skjern í 24-24.

AG byrjaði framlenginguna vel, skoraði tvö fyrstu mörkin og var komið með frumkvæðið í leiknum sem liðið hélt síðan út leikinn.

Arnór Atlason skoraði tvö mörk fyrir AG í dag.

Úrslitaleikurinn fer fram á mörgum og þar mætir AG heimamönnum í Århus Håndbold sem unnu 30-24 sigur á Team Tvis Holstebro fyrr í dag. Ingimundur Ingimundarson er á málum hjá Århus-liðinu en var ekki með liðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×