Körfubolti

Iverson: Taktu bara bílinn, ég á tíu í viðbót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Iverson í stuði.
Iverson í stuði.
Körfuboltakappinn Allen Iverson hellti sér yfir lögreglumann í Atlanta þegar hann var að drífa sig í mat. Lögreglan stöðvaði bíl Iverson fyrir litlar sakir og við það trylltist Iverson.

Lögreglan stöðvaði bílinn þar sem bílstjórinn gleymdi að gefa stefnuljós er hann skipti um akrein. Smámunasemi myndi eflaust einhver segja.

Ökumaðurinn, vinur Iverson, gat ekki sýnt fram á að hann ætti bílinn enda var hann í eigu Iverson sjálfs. Ökumaðurinn sagði við lögregluna að Iverson þurfti að komast í mat en það vildi löggan ekki sætta sig við. Þá trompast Iverson og lét fúkyrðaflauminn vaða yfir lögreglumanninn.

Sá brást við með því að kalla eftir aðstoð. Á meðan beðið var eftir fleiri lögreglumönnum las Iverson lögreglumanninum pistilinn.

"Taktu bara bílinn. Ég á tíu í viðbót. Hefur helvítis lögreglan ekkert betra að gera en eyðileggja daginn minn," sagði Iverson og bætti svo við: "Veistu ekki hver ég er?"

Lögreglumanninum var slétt sama um það. Bíllinn var að lokum dreginn burt enda á ólöglegum númerum síðan 2009.

Iverson baðst að lokum afsökunar á hegðun sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×