Körfubolti

Hlynur og Jakob spila fyrsta leik úrslitanna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson.
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson. Mynd/Valli
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson verða í eldlínunni í dag þegar úrslitaeinvígi Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins fer af stað en fyrsti leikurinn fer fram í Sundsvall og hefst klukkna 14.04 að íslenskum tíma. Það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki verður sænskur meistari.

Sundsvall og Norrköping hafa unnið tvo leiki hvort í innbyrðisleikjum sínum á tímabilinu en á meðan að Sundsvall komst í úrslitaeinvígið með því að sópa út Södertalje þá þurfti Norrköping oddaleik til þess að slá út LF Basket. Undanúrslitaeinvígið hjá Norrköping kláraðist á miðvikudagskvöldið þannig að liðið fékk ekki langan tíma til þess að undirbúa sig fyrir lokaúrslitin.

Sundsvall, sem varð deildarmeistari og er því með heimavallarrétt í úrslitunum,  hefur unnið 6 af 8 leikjum sínum í úrslitakeppninni. Jakob er með 16 stig og 6,1 stoðsendingu að meðaltali í úrslitakeppninni en Hlynur er með 12,0 stig og 8,5 fráköst að meðaltali í þessum átta leikjum.

Hlynur skrifaði um úrslitaeinvígið á bloggsíðu sinni og má finna allan pistilinn með því að smella hér. „Ég er ánægður með að fá þá, flott lið með góða umgjörð. Höllin hjá þeim og öll aðstaða er mjög töff. Virðist vera komin fín stemmning í áhorfendurna hjá þeim líka en þeir voru fullrólegir í vetur. Vonandi verða læti og pakkað hjá þeim eins og verður pottþétt hjá okkur, segir Hlynur þar og skrifar ennfremur.

„Þetta er best of 7 sería, ég hef aldrei spilað í þannig áður. Byrjað á föstudaginn langa og svo spilað annan hvern dag held ég út seríuna. Það er langt ferðalag til Norrköping og alltaf gist eina nótt á hóteli. Verður strembið en svona viljum við samt hafa þetta. Líf og fjör," segir Hlynur á bloggsíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×