Handbolti

Naumur en nauðsynlegur sigur á Lettum í Lettlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Valli
Íslenska handboltalandsliðið vann fjögurra marka sigur á Lettum í Lettlandi, 29-25, í undankeppni EM 2012 sem fer fram í Serbíu í byrjun næsta árs. Íslenska liðið varð að vinna leikinn til að eiga möguleika á því að komast áfram. Það skiptir einnig miklu máli hvernig leikur Austurríkis og Þýskalands fer en hann er að hefjast í Austurríki.

Leikur íslenska liðsins var langt frá því að vera sannfærandi en sem betur fer tókst strákunum þá að landa sigrinum og halda lífi í voninni að komast til Serbíu.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk og Róbert Gunnarsson skoraði sex mörk þar af fjögur þeirra á síðustu 15 mínútunum. Alexander Petersson skoraði 4 mörk og komu þau öll í fyrri hálfleik. Björgvin Páll Gústavsson varði 17 skot í íslenska markinu.

Lettar skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins og fyrsta íslenska markið kom ekki fyrra en rétt tæpar fimm mínútur þegar Ólafur Stefánsson skoraði af vítalínunni.

Íslenska liðið komst yfir í 3-2 á rétt rúmri mínútu og var síðan komið í 9-3 þegar 18 mínútur voru liðnar af leiknum.

Íslenska liðið komst mest átta mörkum yfir, 12-4, þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Íslenska liðið slakaði hinsvegar örlítið á eftir þetta og Lettunum gekk aðeins betur að skora fram að hálfleik þar sem íslenska liðið var með sex marka forystu, 17-11.

Líkt og í fyrri hálfleiknum þá byrjuðu Lettarnir seinni hálfleikinn mjög vel og náðu að koma munnum niður í þrjú mörk, 17-14, með því að skora þrjú fyrstu mörk hálfleiksins. Helmuts Tihanovs kom í markið í hálfleik og varði fjögur fyrstu skot íslenska liðsins.

Lettarnir héldu áfram að stríða íslenska liðinu og minnkuðu muninn í eitt mark, 20-19 þegar hálfleikurinn var hálfnaður og leikurinn var í járnum næstu mínúturnar á eftir.

Róbert Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson fóru þá í gang og íslenska liðið náði aftur fjögurra marka forystu. Róbert skoraði 4 mörk á stuttum kafla, Björgvin varði vel í markinu á þessum kafla og íslenska liðið landaði nauðsynlegum sigri.

Ísland-Lettland 29-25 (17-11)Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 9, Róbert Gunnarsson 6, Alexander Petersson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Arnór Atlason 2, Ólafur Guðmundsson 2, Ólafur Stefánsson 2/1, Ingimundur Ingimundarson 1, Oddur Gretarsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 17/1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×