Handbolti

Guðný Jenný: Góð vörn fyrir framan mig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðný Jenný Ásmundsdóttir átti stórleik í íslenska markinu þegar að Ísland vann nítján marka sigur á Úkraínu, 37-18, í undankeppni HM 2011 í Brasilíu.

Ísland er nú komið með annan fótinn í heimsmeistarakeppnina en liðin mætast öðru sinni í Úkraínu um næstu helgi.

„Þetta gekk bara vel í dag og var gaman. Það var góð vörn fyrir framan mig og við vorum búnar að leggja upp með ákveðna samvinnu á milli markvarðar og varnar sem gekk vel upp í dag," sagði Jenný en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.

Berglind Íris Hansdóttir og Íris Björk Símonardóttir hafa verið aðalmarkverðir íslenska landsliðsins en voru hvorugar með í dag. Jenný segist ekki velta því mikið fyrir sér.

„Við spáum ekki mikið í því, ég og Guðrún (Ósk Marísdóttir markvörður), og einbeitum okkur frekar að því sem við erum að gera. Við viljum klára okkar verkefni með sóma og ætlum að gera það."

„Mér fannst stuðningur áhorfenda góður í dag en það hefði verið gaman að fá fleiri. Ég hlakka mikið til ferðarinnar til Úkraínu en við þurfum að undirbúa okkur fyrir erfiðan leik þar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×