Handbolti

Ísland á sjöunda EM í röð eftir stórsigur á Austurríki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir okkar eru komnir á enn eitt stórmótið eftir frábæran fimmtán marka sigur á Austurríki, 44-29, í Laugardalshöllinni í dag en þetta var síðasti leikur íslenska liðsins í riðlinum. Ísland er því komið í úrslitakeppnina í Serbíu á næsta ári ásamt Þjóðverjum sem unnu riðilinn með því að vinna léttan sigur á Lettum fyrr í dag. Þetta verður sjöunda Evrópumótið í röð þar sem íslenska karlalandsliðið er meðal þátttakenda.

Það var ljóst frá byrjun að einbeittir leikmenn íslenska liðsins ætluðu að klára þennan mikilvæga leik með stæl. Liðið hefur verið að missa Austurríki fram úr sér í undanförnum leikjum en nú fundu strákarnir taktinn frá byrjun leiksins. Íslenska liðið fór á kostum og það voru allir leikmenn liðsins að finna sig. Austurríkismenn áttu því ekki neina möguleika í frábærri stemmningu í Höllinni í dag.

Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson skoruðu báðir átta mörk í leiknum í dag og klikkuðu bara á þremur skotum saman. Ólafur Stefánsson skoraði 7 mörk og þeir Alexander Petersson og Róbert Gunnarsson voru báðir með fimm mörk. Skotnýting íslenska liðsins var frábær eða 79 prósent.

Markverðir voru líka báðir í essinu sínu, Björgvin Páll Gústavsson varði 22 skot og Hreiðar Levy Guðmundsson kom síðan í markið síðustu níu mínúturnar og varði 6 af 8 skotum Austurríkismanna.

Austurríki skoraði fyrsta markið í leiknum en íslenska liðið svaraði með því að skora fjögur mörk í röð þar af þrjú þau fyrstu úr hraðaupphlaupum. Eftir það var íslenska liðið komið með frumkvæðið í leiknum sem það hélt út leikinn.

Ísland komst fyrst fjórum mörkum yfir eftir túmalega tíu mínútur þegar Guðjón Valur Sigurðsson kom liðinu í 9-5 úr hraðaupphlaupi og rúmum þremur síðar kom Aron Pálmarsson liðinu í 12-7 með stórglæsilegu skoti.

Strákarnir héldu áfram að spila vel, Björgvin Páll Gústavsson varði mjög vel í markinu (15 skot í fyrri hálfleik), Guðjón Valur og Aron voru í miklum ham í sókninni og það var hvergi veikleika að finna í leik liðsins.

Íslenska liðið komst mest átta mörkum yfir í hálfleiknum (20-12) en var með sjö marka forskot í hálfleik, 21-14.

Guðjón Valur og Aron nýttu öll tíu skotin sína í fyrri hálfleiknum, Guðjón Valur skoraði sex mörk og Aron bætti við fjórum mörkum. Róbert Gunnarsson var einnig með hundrað prósent nýtingu en hann skoraði þrjú mörk.

Besti maður liðsins var þó Björgvin Páll í markinu sem varði 52 prósent skotanna sem komu á hann í hálfleiknum og var með tíu fleiri varða bolta en markverðir Austurríkismanna.

Alexander Petersson skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og kom íslenska liðinu í 23-14. Það varð strax ljóst að íslenska liðið ætlaði ekki að gefa neitt eftir og fljótlega var eins og austurríska liðið væri búið að gefast upp.

Ísland var komið ellefu mörkum yfir, 30-19, eftir 11 mínútur í seinni hálfleik og munurinn var orðin þrettán mörk, 37-24, eftir rúmlega 18 mínútna leik. Munurinn varð á endanum fimmtán mörk eftir að íslenska liðið vann síðustu átta mínúturnar 5-1.

Ísland-Austurríki 44-29 (21-14)Mörk Íslands (Skot): Aron Pálmarsson 8 (9), Guðjón Valur Sigurðsson 8 (10), Ólafur Stefánsson 7/2 (10/2), Róbert Gunnarsson 5 (5), Alexander Petersson 5 (7), Arnór Atlason 4 (6), Ingimundur Ingimundarson 2 (2), Snorri Steinn Guðjónsson 2 (3), Vignir Svavarsson 1 (1), Sverre Jakobsson 1 (1), Arnór Þór Gunnarsson 1 (1), Ásgeir Örn Hallgrímsson 0 (1).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 22 (49/3, 45%), Hreiðar Levy Guðmundsson 6 (8, 75%).

Hraðaupphlaupsmörk: 13 (Ingimundur 2, Arnór 2, Guðjón Valur 2, Alexander 2, Róbert 2, Vignir1, Ólafur 1, Sverre 1)

Fiskuð víti: 2 (Róbert, Alexander)

Brottvísanir: Ísland 6 mínútur, Austurríki 4 mínútur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×