Handbolti

Sigurbergur samdi við Basel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurbergur í búningi Basel.
Sigurbergur í búningi Basel. Mynd/Heimasíða Basel
Sigurbergur Sveinsson, fyrrum leikmaður Hauka, er genginn til liðs við svissneska félagið RTV 1879 Basel og gerði hann eins árs samning við félagið.

Sigurbergur lék í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, fyrst með Rheinland og svo Hannover-Burgdorf. Sigurbergur fór frá fyrrnefnda félaginu vegna fjárhagserfiðleika þess en átti í harðri samkeppni um stöður hjá Hannover-Burgdorf.

Fram kemur á heimasíðu Basel að það eru utanaðkomandi aðilar sem munu greiða laun Sigurbergs en honum er ætlað að fylla skarð svissneska landsliðsmannsins Ruben Schelbert sem gekk í sumar til liðs við Kadetten Schaffhausen.

Björgvin Páll Gústavsson hefur orðið meistari með Shaffhausen síðustu tvö árin en hann er nú genginn til liðs við Magdeburg í Þýskalandi. Basel varð í níunda sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Hann á að baki 35 leiki með A-landsliði Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×