Handbolti

Guðmundur Þórður: Einstefna í síðari hálfleik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var nokkuð sáttur með úrslitin í leikslok en viðurkenndi að hann hefði verið allt annað en sáttur í hálfleik.

„Þetta var slakt af okkar hálfu (í fyrri hálfleik). Við byrjuðum ágætlega og vorum komnir fjórum mörkum yfir en misnotuðum endalaust af dauðafærum, sjö eða átta í fyrri hálfleik. Gerðum átta tæknimistök sem er óásættanlegt fyrir landsliðið."

Íslenska liðið hafði frumkvæðið í hálfleiknum og hafði 2-3 marka forystu fyrri hluta hans. Þá brá Guðmundur á það ráð að skipta öllu liðinu útaf og má segja að leikur liðsins hafi hrunið í kjölfarið.

„Menn voru værukærir. Það er erfitt fyrir landsliðið að gíra sig upp í svona leiki. Þeir hlustuðu vel á mig í hálfleik, ég lét þá aðeins heyra það og þeir komu miklu grimmari í síðari hálfleik. Það var einstefna," sagði Guðmundur.

Hans sterkasta lið hóf leikinn í síðari hálfleik og það skilaði sér.

„Ég vildi fá þetta í gang. Þeir svöruðu því mjög vel og í sjálfu sér var síðari hálfleikurinn mjög góður. Varnarlega vorum við að gera þetta eins og við viljum gera það og það er mjög jákvætt," sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði stöðuna á liðinu misjafna. Hann nefndi þó að breiddin mætti vera meiri enda vantaði sterka leikmenn í íslenska landsliðið. Björgvin Páll, Guðjón Valur og Ólafur Stefánsson voru allir fjarri góðu gamni í kvöld.

Guðmundur sagði marga leikmenn úrvalsliðins hafa staðið sig vel.

„Ég hef fylgst með mörgum þessara drengja. Ólafur Guðmunds stóð sig vel og Róbert Aron er mjög efnilegur handboltamaður sem á framtíðina fyrir sér ef hann fylgir því eftir. Ólafur Bjarki sömuleiðis og fleiri góðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×