Handbolti

Þorgerður Anna til Svíþjóðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Ole Nielsen

Handboltakonan Þorgerður Anna Atladóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið H 43/Lundegård frá Lundi og leika með því til loka tímabilsins. Þetta kom fram í Morgunblaðinu í dag.

Þorgerður Anna er átján ára gömul og var einn besti leikmaður íslenska landsliðsins á EM í Danmörku í síðasta mánuði.

Hún var á mála hjá FIF í Danmörku í sumar og haust en yfirgaf félagið vegna mikilla fjárhagsörðugleika. Hún sneri aftur heim í Stjörnuna þar sem hún hefur verið í lykilhlutverki í haust. Blóðtakan er því mikil fyrir Stjörnuna.

Þorgerður Anna segir að framtíðin sé enn óljós enda samningurinn aðeins til fjögurra mánaða.

„Ef ég stend mig vel og líkar lífið þarna og H 43 hefur þörf fyrir mig þá get ég vel hugsað mér að vera áfram þarna. Ef mér hins vegar líkar ekki lífið þá get ég alltaf skoðað mín mál eftir fjóra mánuði," sagði hún.

Önnur landsliðskona, Harpa Sif Eyjólfsdóttir, leikur með Spårvägen frá Stokkhólmi en Íslendingaliðin tvö mætast einmitt strax um næstu helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×