Handbolti

Aron: Fyrsti kostur að þjálfa á Íslandi næsta vetur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson er á heimleið eftir tæpa ársdvöl í Þýskalandi þar sem hann var að þjálfa hjá úrvalsdeildarliðinu Hannover-Burgdorf. Honum var sagt upp störfum hjá félaginu fyrir nokkrum vikum en er enn á fullum launum þar sem samningur hans rennur út árið 2012.

"Ég á enn í viðræðum um starfslok og er boltinn í raun hjá félaginu. Ég er í raun að verða vitlaus á biðinni," sagði Aron í samtali við Fréttablaðið í gær. "Staðan á málinu er afar viðkvæm en ég vonast til þess að þetta hafist á næstu vikum."

Aron stefnir að því að koma heim til Íslands í næstu viku með fjölskyldu sinni. "Fjölskyldan mun alla vega flytja heim og það er svo spurning hvað gerist hjá mér. Ég er enn á launum hjá félaginu og þarf að vera skráður í Þýskalandi á meðan svo er. En félagið veit vel að það er mín ósk að flytja heim til Íslands og það er örugglega ekki hagur félagsins að halda þessu óbreyttu. Þeir vilja semja en ég er enn að bíða eftir svari."

Aron hefur fullan hug á því að halda áfram þjálfun en hann hefur gert það gott með Haukum hér á landi og Skjern í Danmörku.

"Ef tækifæri gefst á Íslandi verður það minn fyrsti kostur. Mér berast reglulega fyrirspurnir en ég hef ýtt því frá mér sem ekki kemur frá Íslandi," segir Aron en hann hefur þó ekki hafið viðræður við neitt íslenskt félag.

"Ég hef sagt við þá sem ég hef talað við að ég geri ekkert fyrr en mín mál eru útkljáð hér. Það skiptir mestu máli og þá get ég byrjað að hugsa um næsta skref."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×