Handbolti

Strákarnir í U-21 landsliðinu komust ekki á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Óli Heimisson, leikmaður íslenska U-21 landsliðsins.
Heimir Óli Heimisson, leikmaður íslenska U-21 landsliðsins.

Ísland verður ekki meðal þátttökuþjóða á HM U-21 liða í Grikklandi næsta sumar eftir að liðið tapaði fyrir Serbíu í dag.

Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Serbanna, 28-24, eftir að Ísland hafði verið með forystuna í hálfleik, 14-13.

Bæði lið höfðu unnið sína leiki í undanriðlinum sem haldinn var í Serbíu um helgina. Leikurinn í dag var því hreinn úrslitaleikur um hvort lið kæmist á HM.

Einar Andri Einarsson, annar þjálfara liðsins, segir strákana hafa þrátt fyrir allt spilað vel.

„En Serbarnir eru með frábært lið og voru á heimavelli. Þetta féll með þeim í dag," sagði Einar Andri.

„Markvörður þeirra var að verja gríðarlega vel og lokaði markinu síðustu tíu mínútur leiksins. Þeim kafla töpuðum við 8-3."

„Það voru þó lykilmenn í okkar liði sem náðu sér ekki algerlega á strik í dag en við vissum að þetta yrði „50-50" leikur. Serbar eru sterkir í þessum aldursflokki og hafa verið með okkur á stórmótunum undanfarin ár."

Þessi sami árgangur í íslenska liðinu náði silfri á HM U-19 ára liða í Túnis árið 2009 eftir að hafa tapað fyrir Króatíu í úrslitaleiknum.

„HM í sumar hefði orðið síðasta verkefni þessa árgangs í keppni yngri landsliða og því miður er þessu því lokið hjá okkur," sagði Einar Andri. „Það stefndi í gott mót hjá okkur í sumar því HM er yfirleitt lakara en EM þar sem aðeins tíu Evrópuþjóðir komast í úrslitakeppnina."

„En að sama skapi er undankeppnin gríðarlega hörð. Það eru margar sterkar þjóðir sem komast ekki til Grikklands og við vorum óheppnir að lenda í sterkum riðli sem var þar að auki haldinn í Serbíu."

„En það voru líka meiðsli í okkar hópi. Örn Ingi Bjarkason, Sigurður Ágústsson og Geir Guðmundsson voru allir meiddir og Aron Pálmarsson og Oddur Gretarsson eru báðir með A-landsliðinu."

„Þetta er því svekkjandi. En strákarnir stóðu sig vel og geta borið höfuðið hátt."

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 8, Róbert Aron Hostert 4, Ólafur Guðmundsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Ragnar Jóhannsson 2, Heimir Óli Heimisson 1, Guðmundur Árni Ólafsson 1, Stefán Rafn Sigurmannsson 1 og Tjörvi Þorgeirsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×