Handbolti

Hefði verið mikil synd að missa Dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas er harður stuðningsmaður Füchse Berlin.
Thomas er harður stuðningsmaður Füchse Berlin. Mynd/E. Stefán
Thomas er gallharður stuðningsmaður Füchse Berlin og var að sjálfsögðu í Max-Schmeling-höllinni í Berlín í gær. Þar sá hann sína menn vinna Magdeburg, 24-20.

Hann var mættur tímanlega fyrir leikinn og blaðamaður Vísis tók hann tali í stúkunni. „Við höfum átt frábært tímabil en það má ekki gleyma því heldur að síðasta ár var mjög gott. Þá enduðum við í þriðja sæti," sagði Thomas en refirnir frá Berlín eru nú í öðru sæti deildarinnar.

Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin og er Thomas þakklátur fyrir það. „Þær aðferðir sem hann hefur beitt hafa virkað gríðarlega vel. Hann er lykilmaður í velgengni liðsins en það sem mér líkar sérstaklega við hann er að um leið er hann að horfa til framtíðar."

„Hann er góður í að ná því besta úr mönnum og er að byggja upp framtíðarlið. Hann leggur sig fram við að þekkja yngri leikmenn félagsins og fylgjast vel með framgangi þeirra. Ég held að það viti á gott fyrir framtíðina."

Tveir íslenskir leikmenn hafa spilað með Füchse Berlin - Alexander Petersson sem nú er meiddur og Rúnar Kárason sem leikur nú með Bergischer HC.

„Alexander er einn af okkar bestu leikmönnum og það verður leiðinlegt að sjá á eftir honum til Rhein-Neckar Löwen í sumar. Rúnar átti erfitt uppdráttar fyrst um sinn enda mjög ungur þegar hann kom hingað. En hann er kominn á gott ról í dag og er á réttri leið."

Dagur Sigurðsson var á dögunum sterklega orðaður við þýska landsliðsþjálfarastarfið. „Jú, auðvitað var ég hræddur um að missa hann en sem betur fer er hann enn hér. Það hefði verið mikil synd að missa Dag."


Tengdar fréttir

Dagur og refirnir frá Berlín gefa ekkert eftir

Vísir fékk stemninguna beint í æð í Max-Schmeling-höllinni í kvöld þar sem að heimamenn í Füchse Berlin unnu góðan sigur á grannliðinu Magdeburg, 24-20, í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×