Handbolti

Kiel í úrslit þýsku bikarkeppninnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með Kiel.
Aron Pálmarsson í leik með Kiel. Nordic Photos / Getty Images
Kiel tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar eftir góðan sigur á Hamburg í undanúrslitum, 27-25.

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans eiga því möguleika á að bæta öðrum titli í safnið á morgun, aðeins nokkrum dögum eftir að liðið tryggði sér þýska meistaratitilinn.

Kiel er með fullt hús stiga í deildinni og er einnig komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Hamburg byrjaði þó betur í dag og var með frumkvæðið á upphafsmínútunum. Kiel náði þó undirtökunum og leiddi í hálfleik, 15-13.

Hamburg komst aftur yfir í seinni hálfleik en svo var allt í járnum á lokamínútum leiksins.

En eins og svo oft áður reyndist franski markvörðurinn Thierry Omeyer hetja sinna manna. Hann varði þrjú góð skot frá leikmönnum Hamburg á síðustu tveimur mínútum leiksins en Hamburg skoraði reyndar ekkert mark á síðustu sex mínútum leiksins.

Daniel Narcisse kom Kiel yfir, 26-25, með gegnumbroti þegar fjórar mínútur voru eftir og Marcus Ahlm innsiglaði sigurinn af línunni eftir glæsilega sendingu Kim Andersson á lokamínútunni.

Aron Pálmarsson komst ekki á blað hjá Kiel að þessu sinni.

Liðið mætir annað hvort Flensburg eða Lübbecke í úrslitaleiknum í Köln á morgun.

Uppfært: Flensburg komst í úrslitaleikinn síðdegis með fimm marka sigri á Lübbecke, 29-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×