Handbolti

Kieler Nachrichten: Besta lið Kiel frá upphafi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Kiel fagna titlinum í gær.
Leikmenn Kiel fagna titlinum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Staðarblaðið Kieler Nachrichten segir að lið Alfreðs Gíslasonar þetta tímabilið sé það besta sem Kiel hefur átt frá stofnun félagsins.

Alfreð og lærisveinar hans tryggðu sér þýska meistaratitilinn í gær eftir fimm marka sigur á Magdeburg. Ekkert lið hefur aldrei unnið meistaratitilinn svo snemma á tímabilinu enda hefur Kiel unnið alla 29 deidlarleiki leiki sína til þessa - sem er vitanlega met.

Wolf Paarmann, blaðamaður Kieler Nachrichten, heldur því fram að núverandi lið Kiel sé það besta frá upphafi og það sé ekkert sem bendir til að það eigi eftir að veikjast á komandi árum.

Kiel hefur átt frábærri velgengni að fagna á síðustu árum og er sigursælasta félagslið Þýskalands frá upphafi. Titillinn nú er sá sautjándi sem félagið hefur unnið. Næsta lið á eftir, Gummersbach, hefur unnið tólf.

Paarmann segir að fjársterk lið eins og Hamburg og Rhein-Neckar Löwen séu með augastað á titlinum en að það verði erfitt að komast fram úr Kiel. Liðið muni styrkja sig enn frekar í sumar með komu þeirra Guðjóns Vals Sigurðssonar, Rene Toft Hansen og Marko Vujin.

Þá gæti líka verið að Kim Andersson taki eitt ár í viðbót með félaginu en samningur hans rennur út árið 2013. Hann hefur þegar ákveðið að ganga þá til liðs við AG í Danmörku en sagan segir að hann vilji komast þangað strax í sumar.

„Þetta er frábær árangur hjá liðinu," sagði Alfreð í samtali við þýska fjölmiðla eftir leikinn. „Það hefur verið sérstaklega gaman að sjá hversu vel leikmennirnir hafa spilað allt tímabilið og hversu vel þeir hafa náð saman."

Landsliðsþjálfarinn Martin Heuberger sagði árangur liðsins með ólíkindum. „Þetta er einstæður árangur hjá Kiel. Ég gæti vel trúað því að liðið vinni alla leikina á tímabilinu," sagði hann.

Heuberger vill þó aðeins meiri spennu í deildina á næsta tímabili. „Það er ekkert sérstaklega gott fyrir deildina þegar eitt lið hefur nánast tryggt sér meistaratitilinn þegar deildin er hálfnuð."

Aron Pálmarsson leikur með Kiel sem er einnig komið í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar sem og Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×