Körfubolti

Real Madrid reis upp frá dauðum og jafnaði einvígið við Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Rodríguez var stigahæstur hjá Real Madrid.
Sergio Rodríguez var stigahæstur hjá Real Madrid. Mynd/AFP
Ótrúlegur endasprettur tryggði Real Madrid 75-69 sigur á Barcelona í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um spænska meistaratitilinn í körfubolta í gærkvöldi en Real vann níu stigum undir þegar sex mínútur voru eftir. Real vann hinsvegar lokakafla leiksins 19-4 og jafnaði einvígið.

Barcelona-liðið var í góðum málum þegar sex mínútur voru til leiksloka en liðið var þá 65-56 yfir. Real Madrid vann hinsvegar næstu fimm mínútur 14-1, komst í 70-66 og snéri leiknum sér í hag.

Barcelona vann dramatískan eins stigs sigur á flautukörfu í fyrsta leiknum en sá leikur fór einnig fram í Barcelona. Næstu tveir leikir eru síðan spilaðir á heimavelli Real Madrid.

Leikurinn var jafn í hálfleik, 40-40, en Barcaelona tók frumkvæðið með því að vinna þriðja leikhlutann 16-9. Börsungar virtust síðan vera með leikinn í góðum höndum þegar leikur liðsins hrundi í leikslok.

Sergio Rodríguez skoraði 14 stig fyrir Real Madrid og króatíski miðherjinn Ante Tomic var með 12 stig og 9 fráköst. Jaycee Carroll og Nikola Mirotić skoruðu báðir 10 stig.

Slóvenski kraftframherjinn Erazem Lorbek fór á kostum í liði Barca í kvöld og skoraði 22 stig á aðeins 29 mínútum en þeir Fran Vázquez og Juan Carlos Navarro skoruðu báðir 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×