Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Eistland 65-87 | Undankeppni EM

Mynd/Anton
Ísland steinlá gegn Eistum 65-87 í undakeppni Evrópumeistaramótsins í körfubolta í Laugardalshöllinni í kvöld. Eistar tóku hreðjartak á leiknum strax í fyrsta leikhluta og átti Ísland aldrei möguleika í leiknum.

Íslenska liðið virkaði þreytt frá upphafi. Leikið er ört og fara leikirnir á milli leikja í löng ferðalög í stað þess að menn geti hvílst. Það afsakar þó ekki frammistöðuna í kvöld því Ísland fékk fjölda opinna skota í leiknum sem hefðu átt að falla.

Varnarleikurinn var slakur hjá Íslandi fyrir utan annan leikhluta. Ísland þurfti að halda þann varnarleik út seinni hálfleikinn til að eiga möguleika en því fór fjærri. Helgi Már Magnússon átti góða innkomur af varamannabekknum en aðrir leikmenn geta allir leikið betur.

Eistland er með fínt körfuboltalið en Ísland á að geta gefið þeim mun betri leik hér á heimavelli. Það vantaði einfaldlega kraft til að gera þetta spennandi því aðeins munaði ellefu stigum í hálfleik, 27-38, og góður kafli í upphafi seinni hálfleiks hefði getað gefið góð fyrirheit.

Það gerðist ekki og Eistar stungu af í þriðja leikhluta og átti Ísland aldrei neina leið inn í leikinn á ný í síðasta fjórðungnum.

Gang leiksins má finna hér að neðst í beinni leiklýsingu.

Leik lokið 67-86.

40. mínúta 65-83: Helgi Már kemur inn með kraft af bekknum sem fyrr í leiknum og munurinn kominn niður í 18 stig.

37. mínúta 59-81: Það má hugga sig við það að það er lítið eftir af leiknum.

35. minúta 55-74: Fimm stig í röð hjá Jóni Arnóri og munurinn kominn undir 20 stig.

33. mínúta 50-72: Eistar eru enn með hreðjartak á leiknum en það má ekki taka það af íslensku strákunum að þeir berjast enn þó leikurinn sé fyrir löngu tapaður.

32. mínúta 48-68: Munurinn kominn niður í 20 stig.

Þriðja leikhluta lokið 42-66: Fimmtán stig skoruð gegn 28. Litlu við það að bæta en það sem augljóst er, léleg vörn og skotnýtingin er enn í molum.

29. mínúta 39-61: Helgi Már kominn inn af bekknum og setur fjögur stig í röð. Vel gert hjá honum en stoppin koma ekki í vörninni.

29. mínúta 35-59: Vandræðalegt...

28. mínúta 33-54: Þá er munurinn kominn yfir 20 stig. Sex íslensk stig á tæpum átta mínútum hjálpa ekki til þar.

27. mínúta 33-52: Enn geiga opin færi og Eistar refsa.

26. mínúta 33-49: Ísland getur varla keypt sér körfu og munurinn eykst hægt og rólega.

23. mínúta 31-43: Jón Arnór er vonandi vaknaður.

22. mínúta 29-41: Hlynur Bæringsson með sterka hreyfingu undir körfunni.

21. mínúta 27-41: Ekki byrjar það vel...

Hálfleikur: Ísland hitti úr 9 af 34 skotum sínum í fyrri hálfleik og í raun ótrúlegt að liðið sé ekki meira undir því Eistar hittur úr 16 af 29 skotum sínum. Ísland hitti úr 2 af 13 þriggja stiga skotum en frákastabaráttan er tiltölulega jöfn, 21-19 fyrir Eista. Ísland tapaði 9 boltum í fyrri hálfleik og Eistar 10.

Öðrum leikhluta lokið 27-38: Ísland náði að halda í horfinu í öðrum leikhluta en 27 stig skoruð í fyrri hálfleik er allt of lítið. Varnarleikurinn í öðrum leikhluta var þó góður og hægt er að byggja á honum fyrir seinni hálfleikinn.

18. mínúta 27-36: Jakob með tvö stig úr hraðaupphlaupi og munurinn kominn í níu stig en þá nælir Öqvist sér í tæknivillu. Hvorugt tæknivítið fór niður.

18. mínúta 25-36: Liðin skiptast á stigum.

16. mínúta 23-34: Liðin skiptast á þristum, nú þarf íslenskan sprett og hafa þetta undir tíu stigum í háflleik.

15. mínúta 18-31: Enn klikka opin skot og Eistar ganga á lagið.

13. mínúta 17-27: Varnarleikur Íslands betri núna en enn gengur erfiðlega að skora.

11. mínúta 17-25: Hlynur Bæringsson með fyrstu körfu annars leikhluta.

Fyrsta leikhluta lokið 15-25: Erfið staða eftir fyrsta leikhluta. Sóknarleikur Íslands ekki nógu góður og vörnin ekki heldur. Ekki góð blanda en það er mikið eftir og allt getur þetta breyst.

10. mínúta 11-25: Skelfilegur kafli hjá Íslandi og troðið eftir tapaðann bolta.

9. mínúta 11-21: Eistar svara með 4-0 sprett og munurinn aftur kominn í tíu stig.

7. mínúta 11-17: Höfum það 7-0. Glæsilegur þristur hjá Helga Má.

7. mínúta 8-17: Fjögur íslensk stig í röð.

6. mínúta 6-17: Tvö víti niður og Ísland stoppaði sprett Eista í sjö stigum.

4. mínúta 4-12: Það eru 12 Eistar á áhorfendapöllunum og það heyrist mun meira í þeim en þessum nokkuð hundruð Íslendingum sem létu sjá sig í kvöld.

4. mínúta 4-12: Öqvist tekur leikhlé, ekki sáttur við byrjunina.

3. mínúta 4-10: Ekki byrjar það vel en Ísland er að fá fín færi. Nú þarf boltinn bara að detta og vörnin að smella.

1. mínúta 2-4: Jón Arnór skorar fyrstu stig Íslands.

1. mínúta: Eistar vinna uppkastið og skora um leið.

Fyrir leik: Tólf af fimmtán leikmönnum Eista leika í heimalandinu, flestir hjá Tartu Ulikool og BC Kalev Cramo. Tveir leika á Ítalíu og einn í Litháen.

Fyrir leik: Ljóst er að Ísland þarf að leika sinn besta leik til að koma í veg fyrir Eistaflug hér í höllinni. Allt þarf að ganga upp í vörninni og skotin að detta.

Fyrir leik: Eistland hefur unnið tvo leiki af fjórum, gegn Slóvakíu á heimavelli og óvæntan sigur í Ísrael sem ætti að segja nokkuð um hve sterkt lið Eista er.

Fyrir leik: Ísland er í næst neðsta sæti A-riðils með einn sigur í fjórum leikjum, hann kom á útivelli gegn Slóvakíu.

Fyrir leik: Það er farið að styttast í að leikurinn hefjist. Enn er nóg af lausum sætum í stúkunni og um að gera fyrir fólk að drífa sig í hús.

Hlynur: Þungir fætur„Mér fannst vanta sjálfstraust í byrjun. Það eins og við værum hræddir við að vera með þær væntingar á bakinu að við ætluðum að vinna. Við erum vanir því að vera lægra skrifaðir og það er allt annað hlutverk að gera kröfur til sín og við þurfum að læra að vera lið sem á að geta unnið en ekki bara vera lið sem reynir að gera sitt besta og sjá hvað gerist. Svo fannst mér þeir hafa meiri orku," sagði Hlynur Bæringsson framherji Íslands í leislok.

„Auðvitað vill maður ekki vera með afsakanir og allir þurfa að ferðast en ég var ekki alveg upp á mitt besta í skrokknum. Þetta tekur á og allt það en menn eiga samt ekki að kvarta of mikið undan þessu, ég held að það myndu mjög margir vera í okkar sporum, ferðast um heiminn og spila körfubolta. Það er ekki eitthvað til að kvarta yfir.

„Við getum talað um allt þetta andlega og sjálfstraust og bla bla bla og auðvitað helst það í hendur en þegar það er búið að kryfja leikinn niður þá snýst þetta um að setja boltann ofan í körfuna. Það þarf bara að hitta og nýta það sem þú færð. Kannski er það sem vantar þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta er ekki flókið, þetta eru skot sem menn fá á æfingum og alla okkar tíð," sagði Hlynur en Eistar tóku 28 fráköst gegn 14 íslenskum í seinni hálfleik.

„Mér fannst við ekki ná að stíga þá nógu vel út og sérstaklega þegar við vorum að skipta. Þeir eru ekki það miklu stærri en við, þetta lið er ekki eins stórt og Serbía og Ísrael, þeir voru bara grimmari. Það er mjög sárt að horfa upp á það þegar menn taka mikið af fráköstum undir manns eigin körfu," sagði Hlynur en Ísland var aðeins ellefu stigum undir í hálfleik og allir möguleikar á að gera leik úr þessu.

„Þetta fór mjög fljótt frá okkur. Ellefu stig er ekki svo slæmt og ef við byrjum seinni hálfleik vel þá kæmi taugatitringur í þeirra leik en við náðum bara ekki að nýta okkur það. Mér fannst við vera þungir, þungir á löppunum og við þurfum að gleyma þessu.

„Það eru bara tveir dagar á milli í ferðalög og þá er það næsta. Það er bara þannig og ætlum að reyna að gera góða hluti í Serbíu þó ég sé ekki viss um það skili sigri. Við getum brotið leikinn niður og svo ætlum við að vinna Slóvaka aftur á sunnudaginn," sagði Hlynur að lokum.

Peter: Fyrsti lélegi leikurinn„Að tapa fyrir Serbíu og Svartfjallalandi er viðbúið, þau eru með mjög góð lið, Eistland er líka með gott lið en þetta var fyrsti leikurinn sem við lékum ekki vel, lékum ekki eins og við eigum að okkur að gera. Við lékum ekki vel fyrir utan að Helgi Magnússon lék að eðlilegri getu,“ sagði Peter Öqvist þjálfari Íslands í leikslok.

„Við vorum ekki nógu ákveðnir í vörninni, við lékum varfærnislega og biðum eftir andstæðingnum bæði í vörn í sókn í stað þess að leika að ákefð. Þegar þú mætir hávaxnara liði þá verður þú að mæta ákveðinn til leiks, bæði varnarlega og sóknarlega. Við náðum því ekki í kvöld.

„Við getum verið ánægðir með mörg þeirra skota sem við fengum í kvöld en við bara hittum ekki. Við klúðruðum sniðskotum og opnum skotum. Það var erfitt að sjá strákana í vandræðum og ég fann til með þeim því þeir vilja sýna sig fyrir framan áhorfendur hér á Íslandi.

„Það er margt sem olli þessu. Það vantaði upp á sjálfstraustið eftir tvö töp í röð. Pressan á að vita að við þurfum að sigra til að halda draumnum á lífi og ferðaþreyta hafði sitt að segja en það á við um öll lið en þetta er erfitt. Það hefur áhrif á að menn geti leikið af krafti í heilan leik,“ sagði Öqvist að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×