Körfubolti

Nú hittu Ísraelsmenn ekkert fyrir utan en rúlluðu samt yfir Slóvaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Tyus var atkvæðamestur hjá Ísrael.
Alex Tyus var atkvæðamestur hjá Ísrael. Mynd/Stefán
Ísraelsmenn fylgdu eftir sigri í Laugardalshöllinni með því að rúlla yfir Slóvaka í undankeppni Evrópumótsins í körfubolta í dag. Ísrael vann þá 18 stiga stórsigur, 82-64, en leikið var í Slóvakíu.

Ísraelsmenn voru mun rólegri í þriggja stiga skotunum en í Höllinni þar sem þeir settu niður tólf þrista og nýttu langskotin sín 60 prósent. Þeir settu aðeins niður 2 af 13 þriggja stiga skotum sínum niður í kvöld en það kom þó ekki í veg fyrir sannfærandi sigur.

Ísraelska liðið var 27-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann, með tólf stiga forskot í hálfleik, 47-35, og komið 22 stigum yfir, 69-47, fyrir lokaleikhlutann.

Alex Tyus var atkvæðamestur hjá Ísrael með 18 stig og 7 fráköst en Lior Eliyahu skoraði 14 stig. NBA-maðurinn Omri Casspi lét sér nægja að skora bara 9 stig í Slóvakíu í kvöld.

Íslenska landsliðið er í Svartfjallalandi þar sem strákarnir mæta heimamönnum á eftir í fjórða leik sínum í keppninni. Íslenska liðið hefur unnið Slóvakíu en tapað fyrir Serbíu og Ísrael sem eru ásamt Svartfjallalandi talin vera sterkustu liðin í riðli Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×