Handbolti

Mikkel Hansen gerði fjögurra ára samning við Paris Handball

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen spilar númer 24 hjá Paris.
Mikkel Hansen spilar númer 24 hjá Paris. Mynd/Fésbókin
Danska stórskyttan Mikkel Hansen er búinn að ganga frá fjögurra ára samningi við franska félagið Paris Handball en hann var að leita sér að liði eftir að AG frá Kaupmannahöfn fór á hausinn. Hansen skrifaði undir í kvöld.

Mikkel Hansen mun því leika með þessum nýju risum í evrópska handboltanum til ársins 2016 en eins og kunnugt er gengu íslensku landsliðsmennirnir Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson til liðs við franska félagið í sumar.

Mikkel Hansen er að mörgum talinn vera besti handboltamaður heims en hann var aðalmaðurinn á bak við Evrópumeistaratitil Dana í ársbyrjun og silfur danska landsliðsins á HM í Svíþjóð 2011. Auk þess spilaði hann frábærlega með AGK undanfarin tímabil.

Auk Hansen og Íslendinganna tveggja hefur Paris Handball samið við menn eins og Didier Dinart, Luc Abalo, Mladen Bojinovic og Marko Kopljar í sumar. Ljóst er að liðið ætlar að ógna Montpellier í frönsku deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×