Handbolti

Karabatic grét fyrir rétti | Settur í leikbann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nikola Karabatic er í slæmum málum.
Nikola Karabatic er í slæmum málum. Nordic Photos / Getty Images
Nikola Karabatic var í dag leiddur fyrir dómara þar sem honum var birt kæra fyrir meint veðmálasvindl í tengslum við leik Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt frönskum fjölmiðlum mun hann hafa fellt tár við þetta tilefni. Hvorki Karabatic né aðrir leikmenn Montpellier sem voru kærðir mega spila með liðum sínum á meðan málið er fyrir dómstólum.

Alls voru sjö núverandi eða fyrrverandi leikmenn Montpellier kærðir, sem og fimm aðrir. Leikmennirnir eru grunaðir um að hafa tapað viljandi leik í frönsku úrvalsdeildinni undir lok síðasta tímabils.

Þeir sem veðjuðu á leikinn högnuðust um samtals 40 milljónir króna á því. Kærustur, vinir og ættingjar leikmanna voru meðal þeirra kærðu.

Aðrir leikmenn sem voru kærðir eru Primoz Prost, Samuel Honrubia, Dragan Gajic, Mladen Bojinovic og Issam Tej. Honrubia og Bojinovic leika í dag með PSG en þangað fóru þeir í sumar.

Verði þau fundin sek má dæma þau í allt að fimm ára fangelsi og sekta um tæpar tólf milljónir króna.

Karabatic lýsti yfir sakleysi sínu á Facebook-síðu sinni í gær. „Veðjaði ég á leikinn? Nei. Veðjaði kærasta mín á leikinn? Já. Sagði hún mér frá því? Já," skrifaði hann.

„Af hverju veðjaði hún? Vegna þess að hún hefur fylgst með liðinu í tvö ár og vissi af okkar stöðu. Við vorum þegar orðnir meistarar, voru með fimm meidda leikmenn og töpuðum í Nimes í síðasta leik á undan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×