Handbolti

Haukar töpuðu fyrri leiknum með fimm mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson.
Stefán Rafn Sigurmannsson. Mynd/Daníel
Haukar töpuðu 30-25 á móti úkraínska liðinu HC Motor Zaporozhye í fyrri leik liðanna í 2. umferð EHF-keppni en báðir leikirnir fara fram úti í Úkraínu um helgina. Leikurinn í kvöld taldist vera heimaleikur Úkraínumanna.

HC Motor Zaporozhye var 15-11 yfir í hálfleik og náði að auka muninn upp í fimm mörk í seinni hálfleiknum. Róðurinn verður þungur hjá Haukum í seinni leiknum á morgun en þeir geta komist áfram á fimm marka sigri ef úkraínska liðið skorar ekki meira en 24 mörk.

Stefán Rafn Sigurmannsson var markahæstur í Haukaliðinu með 11 mörk en Jón Þorbjörn Jóhannsson kom næstur með fjögur mörk. Stefán Rafn er búinn að vera í miklu stuði í keppninni og er þegar kominn með 37 mörk í aðeins þremur leikjum.

Levgen Zhuk, leikmaður HC Motor Zaporozhye, fékk að líta beint rautt spjald hjá makedónskum dómurum leiksins en hann var þá búinn að skora þrjú mörk. Rússinn Inal Aflitulin var markahæstur hjá liðinu með 6 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×