Handbolti

Magdeburg fékk lánaðan markvörð frá Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þýska úrvalsdeildarliðið Magdeburg er í miklum markvarðavandræðum þessa dagana og fékk því markvörð að láni frá danska liðinu Nordsjælland.

Sá heitir Kristian Asmussen og mun vera með liðinu næstu sjö vikurnar. Hann er 41 árs gamall og lék áður með danska landsliðinu og Altea á Spáni.

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er á mála hjá Magdeburg en hefur verið frá vegna meiðsla og þá hefur hinn aðalmarkvörður liðsins, Gert Eijlers, einnig verið tæpur.

Magdeburg mætir Grosswallstadt í þýsku úrvalsdeildinni um helgina og voru forráðamenn liðsins undir það búnir að nota Philip Ambrosius, markvörð varaliðsins, í leiknum.

Þjálfarinn Frank Carstens segir þó líkur á að Eijlers geti spilað um helgina auk þess sem að Asmussen verði líka á leikskýrslu. „Við þurfum að passa okkur á æfingum en ég býst ekki við öðru en að báðir munu spila á sunnudag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×