Handbolti

Dagur: Þýska landsliðið eins og enska fótboltalandsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Dagur Sigurðsson segir að hann hafi verið hársbreidd frá því að taka við þjálfun þýska landlsiðsins eftir að Heiner Brand lét af störfum með liðið.

Þetta sagði hann í viðtali við Boltann á X-inu í morgun. „Við vorum tveir eftir og það var stíft fundað," sagði Dagur en Martin Heuberger, fyrrum aðstoðarmaður Brand, var á endanum ráðinn.

„Ég er pínulítið feginn, eftir á að hyggja, því við áttum svo frábært tímabil með Füchse Berlin. Við komumst í Final Four í Meistaradeildinni og áttum gott tímabil í þýsku deildini."

Hann segir að það sé ekki auðvelt verkefni að taka að sér þýska landsliðið.

„Það hefði samt vissulega verið gaman," segir Dagur. „En þetta er ekki ósvipað enska fótboltalandsliðinu. Hér er besta deildin og margar stjörnur en svo kemur lítið úr þessu þegar þessu er púslað saman í landsliðinu."

„Það er ekki sami andi í landsliðinu hér og í íslenska landsliðinu. Þá koma menn gjarnan heim í landsliðsverkefni, bæði til að hitta fjölskyldu og vini en líka til að spila fyrir þjóðina. Það er ekki til staðar í þýska landsliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×