Körfubolti

Skoraði 138 stig í nótt og setti NCAA-stigamet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Taylor, leikmaður körfuboltaliðs Grinnell-háskólans, endurskrifaði körfuboltasöguna í nótt þegar hann skoraði 138 stig í 179-104 sigri á Faith Baptist Bible sjólanum í 2. deild bandaríska háskólaboltans. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri stig í einum leik í sögu bandaríska háskólaboltans.

Bevo Francis átti gamla stigametið sem var orðið meira en hálfrar aldrar gamalt en hann skoraði 113 stig fyrir Rio Grande í sigri á Hillsdale 1954.

Jack Taylor hitti úr 52 af 108 skotum sínum í leiknum en þar af hitti hann úr 27 af 71 þriggja stiga skoti. Taylor spilaði í 36 mínútur í leiknum og skoraði því 3,8 stig að meðaltali á hverri mínútu sem hann var inn á vellinum.

„Mér leið eins og öll skotin mín væru að fara í körfuna," sagði Jack Taylor eftir leikinn en það er þó ekki eins og að hann hætti að skjóta þegar hann hitti illa. Taylor nýtti aðeins 11 af 41 skoti í leiknum á undan.

Taylor var kaldur í upphafi leiks en þjálfarar liðsins hvöttu hann til að halda áfram að skjóta.

Hann var kominn með 58 stig í hálfleik og hitti síðan úr 32 af 58 skotum sínum í seinni hálfleiknum þar sem hann skoraði 18 þriggja stiga körfur. David Larson átti flottan leik hjá Faith Baptist skólanum en 70 stigin hans féllu algjörlega í skuggann á afrek Taylor.

Jack Taylor hækkaði með þessari frammistöðu sinni meðalskor sitt á leiktíðinni frá 23,5 stigum upp í 61,7 stig að meðaltali í leik.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×