Handbolti

Ingvar og Jónas dæma stórleikinn í Frakklandi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson.
Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson.
Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson munu dæma stórleik Montpellier Agglomeration og Flensburg-Handewitt í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 17:50.

Liðin mætast í sjöundu umferð A-riðils keppninnar en Flensburg getur tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum með sigri í leiknum.

Jónas og Ingvar fá ekki að dæma hjá Ólafi Gústafssyni því hann má ekki leika með Flensburg í riðlakeppninni en hann gæti leikið með liðinu komist það í 16 liða úrslit keppninnar en liðið stendur vel að vígi, fimm stigum á undan Ademar Leon sem á þrjá leiki eftir í riðlinum.

Vísir setti sig í samband við Jónas þegar hann og Ingvar voru að leggja loka hönd á undirbúning sinn fyrir leikinn. Jónas sagði að þeir félagar hlakki mikið til að taka þátt í þessari skemmtun í kvöld.

Kalt er í Frakklandi en búast má við miklum hita í leiknum þar sem mikið er í húfi. Montpellier er í fjórða sæti riðilsins, þremur stigum á eftir Flensburg og tveimur stigum á undan Ademar Leon en fjögur lið komast úr riðlinum í sextán liða úrslit.

Litlu munaði að Ademar Leon kæmist í undanúrslit keppninnar í fyrra en staða liðsins verður vægast sagt erfið vinni Montpellier í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×