Körfubolti

Helena og félagar taka þátt í nýrri tveggja landa keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angels Kosice
Helena Sverrisdóttir og félagar í Good Angels Kosice eiga möguleika á því að vinna glænýjan titil í vor því í fyrsta sinn fer þá fram keppni á milli bestu liða Slóvakíu og bestu liða Ungverjalands. Hún hefur fengið nafnið MEL-deildin en deildarkeppni liða frá Mið-Evrópu.

Good Angels Kosice vann slóvakísku deildarkeppnina með fullu húsi stiga á dögunum og varð einnig slóvakískur bikarmeistari í byrjun þessa árs. Liðið er einnig að gera mjög góða hluti í Euroleague þar sem Góðu englarnir hafa unnið 7 af fyrstu 9 leikjum sínum.

Nýja MEL-deildin fer þannig fram að fjögur efstu liðin úr deildarkeppni Slóvakíu og fjögur efstu liðin úr deildarkeppni Ungverjalands fá að taka þátt. Liðin spila heima og að heiman við liðin frá hinu landinu en taka með sér leikina við liðin frá sama landi.

Við lok deildarkeppninnar tryggja fjögur efstu liðin sér farseðil á úrslitahelgina sem fer fram 3. til 4. maí eða tæpur tveimur mánuðum eftir að deildarkeppninni lýkur.

Good Angels Kosice er sigurstranglegt í þessari keppni en eftir MEL-deildarkeppnina tekur síðan við hefðbundin úrslitakeppni í Slóvakíu og tímabilið endar síðan á úrslitahelginni komist Good Angels Kosice liðið þangað eins og allir búast við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×