Handbolti

Þórir bikarmeistari með Kielce

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Ólafsson og félagar fagna titlinum í gær.
Þórir Ólafsson og félagar fagna titlinum í gær. Mynd/Heimasíða KS VIVE Targi Kielce
Íslenski landsliðsmaðurinn Þórir Ólafsson varð í gær pólskur bikarmeistari með liði sínu KS VIVE Targi Kielce en liðið vann þá eins marks sigur á Orlen Wisla Plock í bikarúrslitaleiknum, 28-27.

Þetta var annað árið í röð sem Þórir verður bikarmeistari með liðinu og þriðji stóri titilinn sem hann vinnur á tveimur tímabilum.

Þórir skoraði tvö mörk úr fjórum skotum í leiknum en bæði mörkin hans komu í fyrri hálfleiknum. Kielce var 14-12 yfir í hálfleik. Slóveninn Uros Zorman var markahæsti leikmaður liðsins með 4 mörk og var eftir hann kosinn mikilvægasti leikmaðurinn.

Þórir skoraði 4 mörk úr 5 skotum í 41-22 sigri á SPR Chrobry Glogów í undanúrslitaleiknum daginn áður.

KS VIVE Targi Kielce var að vinna pólska bikarinn fimmta árið í röð og alls í tíunda skiptið frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×