Fótbolti

Riise hraunar yfir félaga sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Riise í vænni klemmu á milli risans Brede Hangeland og Íslendinganna Arons Einars og Kára Árnasonar.
Riise í vænni klemmu á milli risans Brede Hangeland og Íslendinganna Arons Einars og Kára Árnasonar. Mynd/Vilhelm
Norski landsliðsmaðurinn John Arne Riise er allt annað en sáttur við ákvörðun landsliðsþjálfara Norðmanna að velja Tarik Elyounoussi sem varafyrirliða liðsins.

Riise sagði í viðtali við TV2 í gær að hann hefði átt að taka við fyrirliðabandinu þegar Brede Hangeland var skipt af velli í æfingaleiknum á móti Úkraínu á dögunum.

Það var þó Tarik Elyounoussi sem mætti til síðari hálfleiksins með fyrirliðabandið um upphandlegginn.

„Þegar þú hefur spilað 110 landsleiki og hefur feril eins og ég að baki ætti það að vera næstum því sjálfvirkt að ég fengi fyrirliðabandið," sagði Riise í viðtalinu.

„Á vellinum eru það bara við Brede sem látum í okkur heyra. Enginn annar. Það er ekki ætlun mín að móðga Tarik eða neinn annan en enginn segir neitt nema við Brede. Þannig að ég var hundsvekktur með þetta."

Egil Drillo Olsen (t.h.), landsliðsþjálfari Norðmanna, á Laugardalsvelli.Mynd/Vilhelm
Elyounoussi svaraði fyrir sig í gærkvöldi og sagði ekki rétt að aðrir leikmenn liðsins en stórstjörnurnar tvær létu í sér heyra á vellinum.

„Það er gott að hafa þá tvo á vellinum en það eru fleiri sem bera ábyrgð. Það eru ungir leikmenn í landsliðinu sem hungrar í árangur og mikilvægt að við berum ábyrgð," segir Elyounoussi sem spilar á kantinum hjá Rosenborg.

„Håvard Nordtveit er leiðtogatýpa. Moa hefur sig líka í frammi svo að við höfum nokkra sem eru duglegir að tjá sig. Mér finnst því ekki rétt hjá Riise að þeir séu þeir einu sem tjái sig," segir Elyounoussi við Nettavisen.

Ísland og Noregur eru saman í riðli í undankeppni fyrir HM 2014. Ísland vann 2-0 sigur í leik liðanna á Laugardalsvelli í haust. Stöðuna í riðlinum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×